Fimmtudaginn 8. mars verður nýr íslenskur söngleikur, Leg eftir Hugleik Dagsson og Flís, frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í leikstjórn Stefáns Jónssonar.

Leg gerist í Garðabæ í náinni framtíð. Kata er ung stúlka í fjölbraut, lífið leikur við hana, hún er sæt, sjálfstæð og hress.

Á 19 ára afmælisdaginn nákvæmlega klukkan 13.30 síðdegis gerist þetta: Mamma og pabbi skilja, Kalli litli bróðir Kötu greinist með fuglaflensuna, kærastinn segir henni upp og hún fær staðfestingu á því að hún sé ólétt.

Þar með hefst ferð Kötu um ranghala lífsins á leið til nokkurs þroska. Nokkrar lykilpersónur sem koma við sögu á þeirri leið eru: Hjörtur kvensjúkdómalæknir sem lærði í Japan, Bachelorinn Sigmar Snær, Andri félagsráðgjafi, Ingunn besta vinkona Kötu, Dr. Smith og Andrew Lloyd eigandi og forstjóri alþjóðadeildar auðhringsins Globófist að ógleymdum foreldrum Kötu þeim Völu og Ara.

Hugleikur Dagsson hefur verið afkastamikill myndasöguhöfundur síðan hann heftaði sjálfur saman og gaf út sína fyrstu sögu Elskið okkur. Bækur hans hafa selst í stórum upplögum bæði innan lands og utan og ljóst að kolsvört kímnigáfa hans hittir í mark.

leg.gifMargir af þeim sem koma við sögu þessarar sýningar komu að uppsetningu á verki Hugleiks, Forðist okkur í Nemendaleikhúsisins og Common Nonsense á síðasta ári en sú sýning vakti mikla athygli.

Stefán Jónsson leikstjóri hefur haslað sér völl í íslensku leikhúsi undanfarin ár sem öflugur og áhrifamikil leikstjóri og hefur fengið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir uppsetningar sínar.

Tónlistin í verkinu er eftir Hugleik Dagsson og Flís, Ilmur Stefánsdóttir hannaði leikmynd en Þórunn Elísabet Sveinsdóttir gerði búninga. Ljósa- og myndbandshönnun önnuðust Arnar Steinn Friðbjarnarson/Undraland kvikmyndagerð, Björn Bergsteinn Guðmundsson, Freyr Vilhjálmsson og Gideon Kiers. Sveinbjörg Þórhallsdóttir sá um kóreógrafíu.

Með helstu hlutverk í Legi fara Dóra Jóhannsdóttir sem leikur Kötu, Kjartan Guðjónsson og Halldóra Geirharðsdóttir leika foreldra hennar og Atli Rafn Sigurðarson leikur fóstureyðingalækninn Hjört. Þess má geta að þetta er fyrsta hlutverk Halldóru Geirharðsdóttur á fjölum Þjóðleikhússins.
Í öðrum hlutverkum eru: Jóhannes Haukur Jóhannesson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson og Valur Freyr Einarsson.