Enn eru nokkur pláss laus á námskeið í leiklistarkennslu á vegum FLÍSS, Félags um leiklist í skólastarfi og fræðsludeildar Þjóðleikhússins.
FLÍSS hefur fengið hinn þekkta dramasérfræðing Jonothan Neelands prófessor við University of Warwick í Englandi til þess að halda tvö námskeið hér á landi. Námskeiðin verða haldin í einum af sölum Þjóðleikhússins, laugardaginn 2. september og sunnudaginn 3. september frá kl. 9. til 16.00. Námskeiðin verða ólík, svo hægt er að bóka sig á bæði.
Fyrri daginn mun Neelands einbeita sér að kennslu yngri barna en þann síðari að miðstigs- og unglingakennslu. Jonothan Neelands hefur haldið námskeið og fyrirlestra um leiklist sem kennsluaðferð um allan heim. Hann hefur samið fjölda bóka um efnið þar á meðal: Structuring Drama Work, Learning through Imagined Experience, Making sense of Drama, Beginning Drama 11-14 og Improve your primary school through drama, en þá síðastnefndu, sem kom út s.l. vor skrifaði hann með konu sinni Rachel Dickinson.
Bókin Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Ragnarsdóttur sem kom út 2004 byggir á sömu hugmyndafræði og Neelands gengur út frá.
Verð á dagsnámskeiði er 12.000.- krónur. Örfá pláss eru enn laus og fyrstir koma fyrstir fá!
Hægt er að skrá sig hjá FLÍSS á netfangið: ogud@btnet.is eða asaragg@simnet.is