Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Engisprettur eftir serbneska leikskáldið Biljana Srbljanović á Stóra sviðinu þann 27. mars nk. í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Þetta ljúfsára verk fjallar á manneskjulegan og heillandi hátt um samskipti fólks, baráttu ólíkra kynslóða og samskipti í fjölskyldum, togstreituna milli foreldra og barna, systkina og hjóna. Við kynnumst hópi persóna og fylgjumst með því hvernig örlög þeirra eru samofin á sérstæðan hátt. Kolsvartur húmor Srbljanović, angurværð og mannleg hlýja renna saman á einstakan máta í þessu margslungna verki.
 
Biljana Srbljanović er álitin eitt athyglisverðasta unga leikskáld Evrópu í dag. Hún sló í gegn með fyrsta leikriti sínu árið 1997 og síðan þá hafa leikrit hennar verið þýdd á fjölda tungumála og leikin í á annað hundrað uppsetningum víða um heim. Í leikritum sínum nær hún á einstæðan hátt að sameina leiftrandi húmor, bráðskemmtilega persónusköpun, næma skoðun á manneskjunni og skarpa þjóðfélagsrýni. Hún tekur virkan þátt í stjórnmálaumræðu í heimalandi sínu og hafa ummæli hennar í fjölmiðlum oft vakið sterk viðbrögð. Engisprettur er nýjasta leikrit Srbljanović, en verkið var frumflutt árið 2005 í Belgrad.
 
Leikarar í sýningunni eru Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, Eggert Þorleifsson, Friðrik Friðriksson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Gunnar Eyjólfsson, Hjalti Rögnvaldsson, Pálmi Gestsson, Sólveig Arnarsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir og Þórunn Lárusdóttir.
 
Um leikmynd sýningarinnar sér Vytautas Narbutas en búninga hannar Filippía I. Elísdóttir. Ljósahönnuður er Lárus Bjönsson en litháíska tónskáldið Giedrius Puskunigis skapar hljóðheim sýningarinnar. Þýðandi verksins er Davíð Þór Jónsson.
 

{mos_fb_discuss:2}