Halaleikhópurinn: Maður í mislitum sokkum eftir  Arnmund S. Backman
Leikstjórn: Þröstur Guðbjartsson

Það er alltaf sérstök stemning og stíll yfir sýningum Halaleikhópsins sem ekki breytist þótt verkin sem tekin eru til sýningar séu mismunandi og leikstjórarnir ólíkir. Þessu veldur aðallega tvennt, það er sýningarsalurinn sem er allur á breiddina en aðallega er það þó leikhópurinn sjálfur þar sem fötlun og hjólastólar verða að styrkleika en ekki hömlun eins og sumir myndu kannski halda.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um leikritið sjálft. Það var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1998 og hefur verið sýnt hjá áhugaleikfélögum víða um land síðan. Þetta er þjóðfélagslegur farsi, þ.e. gamanleikur með þjóðfélagslegu og jafnvel lögfræðilegu ívafi. Leikritið gerist í elliblokk og fjallar um afleiðingarnar af því þegar ekkja í blokkinni kemur heim úr Bónusferð með gamlan skrögg í farteskinu, nauðug viljug. Sá gamli er alveg út á þekju, er í sokkum sitt af hvoru tagi og veit ekki einu sinni hvað hann heitir. Eða er hann kannski bara að þykjast? Það fá áhorfendur aldrei alveg að vita.

Leikstjórinn, Þröstur Guðbjartsson nálgast, verkið á nýstárlegan hátt og bætir inn í það bæði dans- og söngatriðum og slagsmálasenum, sem er kannski ekki alveg borðleggjandi að gera þegar um leikhóp á vegum öryrkjabandalagsins er að ræða og helstu leikarar eru bundnir við hjólastóla. En þetta gengur algerlega upp og setur fútt í sýninguna. Leikmyndin er rétt og slétt íbúð hjá ekkju í blokk, mublur og myndir á sínum stað, ekkert of eða van og lýsingin er eins og gengur og gerist hjá ekkju í blokk. Tónlistin er einfaldlega gömul dægurlög sem spiluð er á fullu í sínum upprunalega búningi. Línan er lögð í fyrsta laginu þar sem Stuðmenn fluttu gráa fiðringinn. Það fór strax grár fiðringur um mig allan. Síðan varð ljóst að það var grár fiðringur í flestum persónum verksins enda er boðskapurinn sá að menn eiga að lifa lífinu og skemmta sér og öðrum fram á grafarbakkann.

Þetta er kraftmikil sýning og fyndin. Gamlar stjörnur úr Halaleikhópnum fara á kostum t.d. þær Hanna Margrét Kristleifsdóttir og Sóley Björk Axelsdóttir sem leika góðhjartaðar konur sem kunna svo dæmalaust vel við vörpulega karlmenn. Kristinn Sveinn Axelsson leikur hins vegar karl sem ekki er auðvelt að kunna vel við og gerir það af innlifun. Konu hans leikur Herdís Ragna Þorgeirsdóttir og hún lætur óbeit sína á eiginmanninum ganga yfir allt karlkynið og sýnir það á afar sannfærandi máta. Hlynur Finnbjörnsson leikur manninn á mislitu sokkunum á óborganlegan hátt, er alveg eins og auli þegar hann er í þeim gírnum en breytist síðan í virðulegan betri borgara þegar minnisleysið rjátlast af honum. Alexander Ingi Arnarson, ungur maður og hraustlegur, er í hlutverki gamlingja sem gengið hefur í gegn um alla öldrunarsjúkdóma læknisfræðinnar og fer létt með að leika 50 ár upp fyrir sig. Margrét Eiríksdóttir og Stefanía Björk Björnsdóttir leika dætur mannsins á mislitu sokkunum. Þær eru fulltrúar yngri kynslóðarinnar, óþolandi frekjudósir, snobbaðar og ágjarnar. Svona er persónugalleríið og það er leikið á fullu, raddbeitingin ekki spöruð, dansað, duflað og slegist. Það er engin lognmolla í lífi eldri borgaranna.

Þetta er fjörleg uppfærsla á skemmtilegu leikverki sem Halaleikhópurinn leysir af hendi með glæsibrag.

Árni Hjartarson