Borgarleikhúsið býður uppá gestaleik frá Volksbühne í Berlín. Verkið og leikstjórinn eru ekki af síðri endanum en Frank Castorf er einn af virtustu leikstjórum í Evrópu í dag. Verkið sem sýnt verður er Endastöð Ameríka og er túlkun Castorfs á leikriti Tennesee Williams Sporvagninn Girnd . Sýningin er samstarfsverkefni Volksbuhne í Berlín og Salzburg Festspiel og var frumsýnd árið 2000. Sýningin hlaut kröftugar móttökur við frumsýningu og eftir að hafa gengið í Salzburg og Berlín hefur sýningin farið í leikferð um heiminn og er nú komin til Íslands. 


Konur á barmi taugaáfalls og meðvitundalausir menn
Berlínar leikstjórinn Frank Castorf lýsir sjálfum sér sem vandræðasegg. Hann ólst upp í Austur-Berlín og menntaði sig þar. Að námi loknu var hann leikhússtjóri á landsbyggðinni þar sem hann mótaði sínar sérstöku vinnuaðferðir. Hann var snemma pólitískur og lenti í kast við kommúníska stjórn Austur-Þýskalands en tókst að vinna sleitulaust að list sinni og án málamiðlana þrátt fyrir skoðanir sínar. Hann tók við leikhússtjórn Volksbühne am Rosa-Luxembourg-Platz, Alþýðuleikhússins í Berlín, árið 1992. Breytingar voru strax merkjanlegar eftir yfirtöku hans á leikhúsinu,  en hann gerði leikhúsið í raun að leikhúsi fyrir alþýðuna er hann lækkaði verð leikhúsmiða verulega fyrir ungt fólk og bauð upp á framsækið leikhús sem ekki gaf færi á málamiðlun. Í lok fyrsta árs hans sem leikhússtjóra var leikhúsið valið leikhús ársins af Theaterheute virtasta leikhústímariti Þjóðverja. Castorf er óhræddur og ögrandi í listsköpun sinni og hikar ekki við að sviðsetja stór verk leikbókmenntanna og bókmenntasögunnar.  Hann beitir póstmódernískum aðferðum í meðferð sinni á bókmenntum, afbyggir verkin og  setur þau saman á ný, á sinn áleitna hátt.  Hann vílar ekki fyrir sér að nota aðferðir margmiðlunar; myndavélar, míkrafóna og stóra skjái og skermi til að magna upp það sem fram fer á sviðinu nánast eins og í “raunveruleika sjónvarpi”.  Í  Endastöð Ameríka beitir hann þessum aðferðum. Hann fer frjálst með verk Tennesee Williams, brýtur upp byggingu verksins, skeytir inn dægurlögum eftir Britney Spears og Lou Reed, varpar upp upprunalegum texta Tennessee Williams  og mundar myndavélum og skjávörpum, en hann er samt trúr inntaki verksins sem heldur sínum beitta boðskapi sem styrkist frekar með tilvísunum úr samtímanum. Castorf er með sterkan leikhóp með sér sem hefur innanborðs meðal virtustu leikara Þýskalands í dag Henry Hübchen.


Sporvagninn Girnd á endastöðinni Ameríku
Sporvagninn Girnd gerist í kreppu eftirstríðsáranna í  Ameríku. Kreppa aðalpersónanna er allsherjar; persónuleg, fjárhagsleg og félagsleg. Við fylgjumst með átökum og angist þessa fólks. Verkið var frumflutt 1947 og hefur af mörgum verið talið eitt af bestu leikverkum síðustu aldar. Samnefnd Hollywoodkvikmynd með Marlon Brando og Vivian Leigh er eflaust mörgum minnistæð en hún skaut þessum leikurum upp á stjörnuhiminn enda persónurnar ótrúlega margslungnar og spennandi.  Verkið segir frá kennslukonunni Blanche Dubios sem kemur í heimsókn til þungaðrar systur sinnar og eiginmanns Stanley Kowalski, pólsks innflytjenda.  Blanche hefur flúið nákaldan veruleika sinn inn í heim tálsýna og lygi og þegar heimsókn hennar dregst á langinn lendir henni saman við Stanley, sem berst við að halda í karlmannlega reisn sína í samfélagi þar sem hann á kant, en í baráttu sinni afhjúpar hann þess í stað dýrið í sjálfri sér. Verk Castorfs er um baráttu fólks í kreppu og veltir upp spurningunni um hversu mikilli afneitun er nauðsynlegt að beita til að lifa af?  Það er verk um konur á barmi taugaáfalls og karlmenn í meðvitundarleysi. Þetta er verk um fólk sem gerir ekki greinarmun á hvað er heilbrigt og hvað er sjúkt. Þetta er verk sem á jafn vel við á öllum tímum og sýnir okkur inn í myrk sálardjúp mannskepnunnar.

ÍSLENSKUR TEXTI

ENDSTATION AMERIKA
sýning eftir Frank Castorf byggð á Sporvagninum Girnd eftir Tennessee Williams

Stella Kowalski: Kathrin Angerer
Stanley Kowalski: Henry Hübchen
Blanche DuBóis: Silvia Rieger
Harold Mitchell: Bernhard Schütz
Eunice Hubbel: Brigitte Cuvelier
Steve Hubbel: Milan Peschel

Leikstjórn:Frank Castorf
Leikmynd og búningar: Bert Neumann
Dramatúrg: Carl Hegemann
Ljósahönnun: Lothar Baumgarte
 
 {mos_fb_discuss:2}