Íslenskum áhorfendum gefst nú einstakt tækifæri til að sjá hina óvenjulegu og rómuðu samísku leiksýningu Sá hrímhærði og draumsjáandinn. Samíska leikhúsið Beaivvᚠsýnir verkið í Kassanum í Þjóðleikhúsinu þriðjudagskvöldið 27. maí nk. Leikstjóri sýningarinnar og listrænn stjórnandi leikhússins er Haukur J. Gunnarsson. Haukur er íslenskum áhorfendum að góðu kunnur fyrir uppsetningar sínar og gestaleiki hér á landi, en hann hefur lengst af starfað á Norðurlöndum. Haukur hefur kynnt sér náið menningararfleifð Sama og japanska leikhúshefð, og hefur þannig einstaka stöðu í leikhúsheiminum.

Nils Aslak Valkeapää, höfundur leikritsins „Sá hrímhærði og draumsjáandinn“ er þekktasta ljóð- og tónskáld Sama. Líkt og Haukur hafði hann lifandi áhuga jafnt á samískum sem japönskum listformum, og í þessu verki stefnir hann saman hinu japanska Noh-leikhúsi og ljóð- og tónlistarhefð Sama. Valkeapää (1943-2001) varð frægur víða um heim fyrir listsköpun sína, en hann fékkst jöfnum höndum við tónsmíðar, ljóðlist og listmálun, auk þess sem hann lagði stund á heimspeki. Sá boðskapur og sú sýn sem hann lagði áherslu á að miðla í verkum sínum skín á einstakan hátt í gegnum þessa leiksýningu, sem í raun teygir sig yfir öll landamæri, hvort heldur listar eða þjóða. Valkeapää var ljóðskáld í víðtækustu merkingu orðsins, hann lagði áherslu á hið hljómræna í tungumáli Samanna og beitti sér fyrir því að landar hans kynntu sér sögu sína og hefðir. Valkeapää hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1991.
 
Leiksýningin „Sá hrímhærði og draumsjáandinn“ hefur hlotið frábærar viðtökur víða á Norðurlöndum. Gagnrýnendur hafa talað um sýninguna sem einstæða reynslu og lýst því hvernig áhorfendur eru sem töfrum teknir. Sýningin einkennist af einstakri myndrænni fegurð, formfestu í umgjörð og íðilfögrum búningum, sem og sérstæðum hljóðheimi, þar sem unnið er með hina samísku joik-sönghefð. Kóreógrafían er unnin á grunni hins japanska Noh-leikhúss. Sýningin er einskonar óður til náttúrunnar, með grípandi boðskap um eilífa hringrás lífsins sem maðurinn er hluti af. Sýningin ætti að höfða til allra þeirra sem hafa áhuga á að kynna sér framandi listform og kynnast nýjum menningarheimum. Í henni mætast ljóðlist, myndlist, tónlist, dans og leiklist í nokkurs konar draumleik sem getur veitt magnaða og óvenjulega reynslu.
 
Beaivvᚠleikhúsið starfar í Kautokeino, einni af stærstu byggðum Sama í Noregi. Starfsemi þess hófst árið 1981 en síðan 1993 hefur það verið þjóðarleikhús Sama í Noregi og notið stuðnings þarlendra stjórnvalda. Markmið leikhússins er að efla samíska menningu með því að setja upp leiksýningar á samísku og kynna menningu Sama í Noregi og á erlendri grundu, og efla þannig skilning og tengsl milli ólíkra menningarheima. Leikhúsið er meðal annars þekkt fyrir myndrænar og sterkar sýningar, þar sem búningar byggðir á samískum hefðum og notkun á snjó og ís hafa meðal annars vakið athygli. Beaivvᚠleikhúsið er farandleikhús sem ferðast reglulega milli Sama-byggða á Norðurlöndunum og til Osló en í þetta sinn ferðast hópurinn einnig með sýninguna til Finnlands, Álandseyja, Danmerku, Færeyja og Grænalands auk Íslands. Hópurinn nýtur styrks frá Nordisk Kulturfond.

Verkið er flutt af fjórum hljóðfæraleikurum og fimm leikurum. Sýningin er flutt á samísku, en texta hennar er varpað á vegg, svo sem flestir geti fengið innsýn í hugarheim skáldsins. Miðaverð á sýninguna er aðeins 2.500 kr. en aðeins er um að ræða þessa einu sýningu 27. maí.
 
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á heimasíðunni: http://www.beaivvas.no
 

{mos_fb_discuss:2}