Halaleikhópurinn býður upp á vinnustofu í sagnalist nú á vordögum. Þetta er sjálfstætt framhald námskeiðs sem haldið var árið 2014. Þá var unnið með þjóðsögur og ævintýri en að þessu sinni verður viðfangsefnið persónulegar sögur. Leiðbeinandi verður sem áður, Ólöf I. Davíðsdóttir, en hún nam sagnalist í Bandaríkjunum. Vinnustofan í ár er öllum opin, jafnt félagsfólki sem öðrum, og þarf fólk ekki að hafa verið á fyrra námskeiðinu. Farið verður stuttlega yfir helstu leiðbeiningar frá fyrra námskeiði, gerðar æfingar og á milli funda vinna þátttakendur áfram með sína sögu heima.
Fyrsti fundur vinnustofunnar verður miðvikudaginn 13. apríl, klukkan 20 til 21:30 í leikhúsi Halaleikhópsins, Hátúni 12, Reykjavík. Síðan verður haldið áfram miðvikudagana 27. apríl, 4. maí og 11. maí.
Þátttökugjald er kr. 3.000 og skal tilkynna þáttöku á netfangið halaleikhopurinn@gmail.com. Þau sem áhuga hafa á að taka þátt í væntanlegri stuttverkaskemmtun Halaleikhópsins næsta haust eru eindregið hvött til að vera með í þessari vinnustofu.