Vinnusmiðja Þjóðleikhússin hefur verið starfrækt undanfarin þrjú ár. Í vetur mun Félag um leiklist í skólastarfi, FLÍSS,  sjá um starfsemi vinnusmiðjunnar í samráði við Fræðsludeildina. Markmið vinnusmiðjunnar er að gefa kennurum og leikurum sem áhuga hafa á kennslu tækifæri til að kynnast vinnubrögðum ýmissa listamanna og kennara og veita kennurum sem vilja nota leiklist í skólastofunni stuðning í viðleitni sinni.  Undanfarin ár hefur allnokkur hópur sótt námskeið vinnusmiðjunnar og vonumst við til að svo verði áfram.

Í vetur fáum við til okkar fimm einstaklinga sem allir hafa getið sér gott orð fyrir störf sín. Þeir koma úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að vinna við hinar ýmsu hliðar leiklistar og leiklistarkennslu. Munu þeir fyrst og fremst kynna sínar vinnuaðferðir fyrir kennurum og gefa þeim hugmynd um hvernig hægt er að nota þær í leiklistarkennslu, almennri kennslu og uppsetningum.

Við munum hittast einu sinni í mánuði yfir veturinn, þrisvar fyrir jól og þrisvar eftir jól. Hér fyrir neðan er dagskrá Vinnusmiðjunnar og allar nánari upplýsingar.

Staðsetning    
Húsnæði Fræðsludeildar Þjóðleikhússins, gamla Hæstaréttarhúsinu, Lindargötu 3.

Verð og skráning:
Eins og undanfarin ár þurfa þátttakendur að skrá sig fyrir allan veturinn. Við reynum að halda kostnaði í algjöru lágmarki og er einungis um að ræða kostnað vegna kennara á fræðslukvöldunum. Allur pakkinn, sex fræðslukvöld, kostar einungis 12.000 kr.
Hægt er að skrá sig hjá FLÍSS á netfangið  HYPERLINK "mailto:ogud@btnet.is" ogud@btnet.is

Tími:
Fræðslukvöldin standa frá kl. 20.00 – 22.00 eða þar um bil. Þau geta alltaf lengst í annan endann ef leiðbeinanda og þátttakendum er mikið niðri fyrir.
Við bendum fólki á að fræðslukvöldin eru á mismunandi dögum vikunnar. Er það til hægðarauka fyrir þátttakendur.

Greiðslur:
Hægt er að borga á staðnum með peningum eða ávísun eða fá sendan greiðsluseðil. Ef sendur er greiðsluseðill þurfum við nafn og kennitölu greiðanda.

Vinnusmiðja FLÍSS og
Fæðsludeildar Þjóðleikhússins
veturinn 2006 – 2007.

Dagskrá:

26. september, þriðjudagur:      
Æfingar og leikir.
Markmiðið er að þátttakendur sjái sjálfir um efniviðinn á þessu fyrsta kvöldi vetrarins og komi með sína uppáhaldsæfingu eða uppáhaldsleik og kynni fyrir hópnum.

25. október, miðvikudagur:         
Dramaþerapía
Siríður Valsdóttir dramaþerapisti og leiklistarkennari í Hagaskóla verður með innlegg um dramaþerapíu og möguleika hennar í skólastarfi.

23. nóvember, fimmtudagur:       
Leiklist í kennslu.
Ása Helga Ragnarsdóttir kennari við Háteigsskóla fjallar um leiklist í kennslu.

22. janúar, mánudagur:
Brúðuleikhús
Bernd Ogrodnik, hinn frábæri brúðuleikhúsmaður, með innlegg um brúðuleikhús í tengslum við uppsetningu hans á Pétri og úlfinum í Þjóðleikhúsinu.

20. febrúar, þriðjudagur:
Leikstjórn
Ágústa Skúladóttir leikstjóri kynnir vinnu sína sem leikstjóri og gefur þátttakendum hugmyndir að smærri uppsetningum með ungu fólki.

21. mars, miðvikudagur:
Skapandi skrif
Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur og myndlistarmaður með innlegg um skapandi skrif.

Ath. Allar dagsetningar hér að ofan eru birtar með fyrirvara um breytingar. Ýmislegt óvænt getur komið upp á hjá leiðbeinendum og plön breyst.