Stofnendur Vinnslunnar eru Guðmundur Ingi Þorvaldsson (leikhúslistamaður), Vala Ómarsdóttir (leikhúslistamaður), María Kjartansdóttir (myndlistarmaður) og Birgir Hilmarsson (tónlistarmaður). Vinnsluna setja þau upp i samvinnu við Alheiminn. Hópurinn kynntist í London þar sem þau lærðu og unnu í sinni listgrein. Saman hafa þau svo sett upp hin ýmis sviðslistaverk og innsetningar, bæði í London og í Reykjavík undir nafninu Maddid. Hópurinn er nú fluttur til landsins og stefnir á að halda Vinnslu kvöld einu sinni í mánuð til að byrja með en markmið hópsins er að opna stað sem verður vettvangur lifandi listsköpunar fyrir opnum dyrum.
Vinnslan gengur út á margt, meðal annars:
– að listafólk geti látið reyna á Verk/hugmynd í Vinnslu
– að listafólk opni fyrir njótendum dyrnar á meðan að á vinnsluferli stendur
– að afmá landamæri milli listgreina
– að skapa samræður milli fremjenda og njótenda lista um sköpun á sem víðustum grunni
– að gefa njótendum tækifæri á að meðtaka að list má upplifa og njóta, burt séð frá skilningi, þekkingu eða menntun.
– að víkka út sjóndeildarhring listnjótenda.
– að víkka út sjóndeildarhring fremjenda.
– að gefa listafólki tækifæri til að vinna að sköpun sinni, áhyggjulaust í öruggu umhverfi.
Ætlunin er að endurtaka Vinnsluna tvisvar í sumar með nýjum verkum og listamönnum, Vinnslan #2 verður 14. júlí og Vinnslan #3 verður 10. ágúst.
{mos_fb_discuss:2}