Það eru þeir Radíusbræður, Davíð Þór og Steinn Ármann, sem leiða saman hesta sína á ný í íslensku útgáfunni af þessum víðfrægðu Ricky Gervais uppistandssýningum. Hafa þeir gert þessar sýningar að sínum eigin með hjálp leikstjórans Gunnars B. Guðmundssonar, sem leikstýrði síðasta Skaupi og kvikmyndinni Astrópíu. Sýningin var frumsýnd í Borgarleikhúsinu á vormánuðum og verður sýnd hjá Leikfélagi Akureyrar í Samkomuhúsinu fimmtudaginn 27. og föstudaginn 28. maí

Sýningin byggir á tveimur vinsælustu uppistandssýningum Bretlands fyrr og síðar; Animals og Politics, en höfundur þeirra er snillingurinn Ricky Gervais. Hann sló sem kunnugt er rækilega í gegn sem höfundur og aðalleikari The Office þáttanna, sem eru margverðlaunaðir og einhverjir vinsælustu og sjónvarpsþættir síðari ára. Gervais hefur í kjölfarið komist í hóp þekktustu grínista heims, og haft mikið að gera. Hann hefur m.a. leikið í Hollywood bíómyndum, gefið út barnabækur gert vinsælustu Podcast þætti veraldar og svo mætti lengi telja.

Áhorfendur fá í raun töfaldan skammt af uppistandi í einni sýningu; fyrir hlé er það Pólítik með Davíð Þór eftir hlé er það Villidýr með Steini Ármanni.

Sýningar hefjast kl. 20.00. Miðasala er í síma: 4 600 200 kl. 13.00-17.00 og á www.leikfélag.is