Þegar Leikfélag Sauðárkróks (LS) var endurreist árið 1941 var fyrsta leiksýningin, Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson, sýnd á Sæluviku vorið 1942 í félagsheimilinu Bifröst. Um síðustu helgi, á Sæluviku 67 árum síðar, fengu þrjár konur sem tóku þátt í þessari sýningu smá virðingarvott frá stjórn LS. Þetta voru heiðurskonurnar Hanna Pétursdóttir, Anna Pálína Guðmundsdóttir og Gunnhildur A. Magnúsdóttir, en þær léku allar álfameyjar í Nýarsnóttinni í Bifröst fyrir nærri mannsaldri síðan og voru virkir meðlimir LS lengi vel.

 

Leikfélag Sauðárkróks var stofnað vorið 1888 „þrátt fyrir óáran til sjós og lands“ í þorpinu Sauðárkróki sem þá taldi tæplega tvö hundruð íbúa. LS gekk inn í Ungmennafélagið Tindastól þegar það var stofnað árið 1907 en var endurreist sem Leikfélag Sauðárkróks árið 1941 og hefur staðið á eigin fótum allar götur síðan.

Laugardaginn 2. maí var haldið upp á 120 ára afmæli Leikfélags Sauðárkróks, þó í raun væri 121 ár liðið frá stofnun félagsins. Boðsgestir fylltu félagsheimilið Bifröst á Sauðárkróki til að horfa á afmælissýninguna Frá okkar fyrstu kynnum – 120 ár í sögu leikfélags eftir Jón Ormar Ormsson og njóta kvöldverðar í boði LS. Til boðsins mættu ungir sem aldnir meðlimir og velunnarar LS sem margir hafa unnið fyrir félagið til fjölda ára og jafnvel áratuga. 

Sjá má fleiri myndir frá afmælishátíðinni og fréttir af LS á heimasíðunni www.skagafjordur.net/ls