ImageÍ kvöld, þriðjudagskvöld 27. sept., verður fyrsti samlestur á nýju leikriti eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason sem gengur undir vinnuheitinu Jólaævintýri Hugleiks. Verkið er mislauslega byggt á Jólaævintýri eftir Dickens og stefnt er að frumsýningu upp úr miðjum nóvember. Áhugasamir eru hvattir til að mæta. Lesturinn hefst í Hugleikhúsinu að Eyjaslóð 9 kl. 20.00.

Í vetur er síðan stefnt að því að Hugleikur verði með mánaðarlega dagskrá í Þjóðleikhúskjallaranum. Æfingar eru hafnar á fyrstu dagskránni, en hún verður flutt 7. og 8. október. Í þessari fyrstu dagskrá er meginuppistaðan frumsýning á einþáttungum eftir félagsmenn, í stíl einþáttungadagskráa sem Hugleikur hefur verið með undanfarin ár. Annars er ætlunin að bjóða upp á ýmislegt úr smiðju Hugleiks á þessum vettvangi í vetur, bæði í tali og tónum.

Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu í vetur, eða vera á póstlista og fá fréttabréf félagsins í tölvupósti, er bent á að mæta á samlestur í kvöld eða senda tölvupóst á netfangið hugleikur@hugleikur.is