Föstudaginn 7. nóvember verður leikritið Vestrið eina eftir írska leikskáldið Martin McDonagh, frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins. Leikritið er fimmta verk leikskáldsins sem sýnt er á íslensku leiksviði og er hann því með ástsælustu leikskáldum landsmanna nú um stundir. Þröstur Leó Gunnarsson og Björn Thors leika óviðfelldna en um leið frekar brjóstumkennanlega bræður sem í kjölfar mikilla sviptinga, ákveða að reyna að lifa í sátt, iðrast og fyrirgefa hvor öðrum áralangar illdeilur og hatur. En leiðin til aukins þroska er erfið. Hnyttin samtöl og bleksvartur húmor einkenna þetta alvöru gamanverk. Það er Jón Páll Eyjólfsson sem leikstýrir, en hann er annar tveggja fastráðinna leikstjóra í Borgarleikhúsinu. Á Nýja sviði Borgarleikhússins er stefnan að sviðsetja afgerandi leikverk sem eiga að snerta, ögra og hrífa.
Verk írska leikskáldsins Martin McDonagh hafa átt einstaklega vel upp á pallborðið hjá íslensku leikhúsáhugafólki en fjögur leikverka hans hafa þegar verið sýnd í íslenskum atvinnuleikhúsum; Fegurðardrottingin frá Línakri í Borgarleikhúsinu, Halti Billi og Koddamaðurinn sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og Svartur köttur sem voru sýndur var hjá Leikfélagi Akureyar. Kvikmyndin In Bruge, sem McDonagh skrifaði handritið að og leikstýrði vakti auk þess verðskuldaða athygli fyrr á árinu.
í Vestrinu eina segir af bræðrunum Coleman og Valene sem eru langt frá því að vera fyrirmyndarborgarar. Þrátt fyrir að vera komnir vel á fullorðinsaldur slást þeir stöðugt, drekka ótæpilega og lát föður þeirra virðist ekki snerta þá hið minnsta. Þegar sóknarpresturinn gerir örvæntingarfulla lokatilraun til þess að koma þeim til manns lítur þó út fyrir að eitthvað rofi til. Bleksvartur húmor og drepfyndin samtöl einkenna þetta alvöru gamanverk.
Það er Jón Páll Eyjólfsson sem leikstýrir verkinu en leikarar eru Björn Thors, Þröstur Leó Gunnarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson. Ilmur Stefánsdóttir gerir leikmynd og búninga, Hallur Ingólfsson semur tónlist og lýsing er í höndum Þórðar Orra Péturssonar. Vestrið eina er sýnt í samstarfi við Ölgerðina. Vestrið eina verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 7. nóvember næstkomandi en sýningar standa fram í desember, enda hefur Borgarleikhúsið tekið upp nýtt snarpara sýningarfyrirkomulag sem er þannig að hvert verk er sýnt í skemmri tíma en áður en mun þéttar á tímabilinu.