Kómedíuleikhúsið fagnar 10 ára afmæli í ár og er því komandi leikár sérlega viðmikið og glæsilegt. Í nóvember frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýjan einleik Jólasveinar Grýlusynir eftir Elfar Loga Hannesson og Soffíu Vagnsdóttur. Leikurinn er byggður á nýjum jólasveinakvæðum eftir Soffíu. Kvæðin úr sýningunni verða gefin út á bók í tilefni að frumsýningunni með teikningum eftir Marsibil G. Kristjánsdóttur. Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson verður á sínum stað en Gísli er nú að hefja sitt fjórða leikár. Gísli byrjar leikárið með stæl og fer hringinn í kringum landið í haust en leikurinn hefur verið sýndur yfir 150 sinnum bæði hér heima og erlendis. Dimmalimm er líka í ævintýraskapi þriðja leikárið í röð og verður m.a. á ferðinni á norður- og austurlandi í haust.. Fjórði leikurinn á verkefnaskrá Kómedíuleikhússins á leikárinu er Skrímsli sem verður m.a. sýndur á höfuðborgarsvæðinu í haust.

 
Rétt er að geta þess að Skrímsli, Dimmalimm og Gísli Súrsson eru ferðasýningar og geta því komið hvert á land sem er og líka til útlanda. Leiklistarhátíðin Act alone verður líka á sínum stað og verður haldin dagana 2. – 6. júlí á Ísafirði. Act alone hefur vakið mikla athygli hér heima og erlendis og er nú haldin fimmta árið í röð. Síðast en ekki síst heldur Kómedíuleikhúsið áfram að gefa út hljóðbækur og verða tvær gefnar út á leikárinu. Fyrir jól kemur út hljóðbókin Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ sem hefur að geyma fjölbreyttar sögur frá þessu mikla sagnasvæði sem nær allt frá Dýrfirði til Hornstranda. Margt annað verður á döfinni hjá Kómedíuleikhúsinu á leikárinu og best að fylgjast vel með á heimasíðunni "http://www.komedia.is" www.komedia.is