Nú standa yfir sýningar á Ventlasvín – innsetningarleikverki sem frú Norma setur upp í samstarfi við Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Leikfélag Seyðisfjarðar. Sýningar eru í gömlum vélasals Sláturhússins á Héraði sem nýlega var breytt í menningarmiðstöð og hýsir nú m.a. frú Normu – leikhús. Verkið gerist á mörkum lygi og raunveruleika. Kannski gerist það í vélarrými kafbáts, kannski inni í höfði táningsstúlku eða í hugum og hjörtum áhorfenda. Hvar sem það nú gerist þá gerist það í síðasta sinn fimmtudagskvöldið 3. júlí kl. 20:00 og 22:00. Aðeins 21 áhorfandi kemst á hverja sýningu vegna gríðarlega sérstaks sýningarrýmis.

Frú Norma mun svo nýta Sláturhúsið enn frekar þegar samstarf hennar við Vinnuskólann og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs hefst. Þá verður sett upp dansleikhúsverk sem ber vinnuheitið 3DM (dansidansidúkkanmín) og skartar áhugasömum nemendum vinnuskólans í öllum helstu hlutverkum. Verkið mun liðast um gamla sali Sláturhússins og það er tekið mið af þeirri starfsemi sem áður var í húsinu við tilbúning verksins. Áætluð frumsýning á 3DM er 19. júlí.

Einnig er frú norma nú að ferðast um landið með sýningu sína á „Soffía Mús á tímaflakki“ og verða næstu sýningar á Soffíu á Humarhátíð á Höfn þan 4. júlí, á Seyðisfirði 12. júlí og á Norðfirði 13. júlí. Soffía mun ennfremur verða sýnd á Vopnafirði síðar í mánuðinum og á Ormsteiti í ágúst, sem eru stærstu árlegu hátíðarhöld á Fljótsdalshéraði.

{mos_fb_discuss:2}