Það sem dró fólkið á námskeiðið virtist aðallega vera það að menn langaði að lyfta sér upp, kynnast sjálfum sér og sinni getu, teygja aðeins á þægindasviðinu, víkka sjóndeildarhringinn og nýta sér þetta allt við að leika betur, nú eða bara í daglega lífinu. Til að ná þessu fram voru gerðar ýmiskonar samvinnu- og hópæfingar sem virtust mjög undarlegar við fyrstu sýn, en höfðu allar ákveðinn tilgang. Æfingin að ganga um í hóp og stoppa þegar einhver annar stoppar æfir tilfinningu fyrir umhverfinu, meðleikendum og hreyfingum þeirra; strengjabrúðuleikur gengur út á að skilja ábyrgð stjórnandans á þeim sem hann stýrir og einbeitingu og öryggi þess sem lætur að stjórn; að gefa og þiggja bros sem stækkar alltaf pínulítið virkar svo bara fyndið og skemmtilegt, en lumar örugglega á einhverjum félagslegum samskiptapælingum sem tíðindamaður getur ekki alveg fest fingur á.
Jakob stýrði hópnum í gegnum æfingarnar af skemmtilegri lipurð, hópurinn virtist alveg með á nótunum og fylgdi honum einbeittur eftir, sama hversu undarlegar pælingar og æfingar voru í gangi. Jakob tók líka fram í lok æfingar að þetta væri samheldinn hópur og fyrsta kvöldið á leiklistarnámskeiði gengi nú ekki alltaf svona smurt.
Hópurinn var að lokum sammála um að það sem þau hefðu í raun verið að gera allt kvöldið væri að kynnast, læra að tengjast fólki á nýjan og öðruvísi hátt, vinna með öðrum (sem reyndist sumum auðveldara en þeir héldu), en aðalatriðið hefði þó verið að skemmta sér og leika sér saman!
g&b
{mos_fb_discuss:3}