ImageSegjum svo að manneskja standi upp í fjölmenni og heimti athygli viðstaddra þá er það ekki endilega leiklistarviðburður. En ef manneskjan fer upp á kassa er það í áttina, gæti þó verið framboðsræða eða predikun, jafnvel kynning á nýrri tannkremstegund.

Ef manneskjan talar mjög hátt og tilgerðarlega, syngur og dansar eða hreyfir sig óvenjulega, klæðist furðulegum fötum eða bara alls engum fötum, þá er þetta örugglega leiklist. Sérstaklega ef hún er alsber.

Ef manneskjan í þokkabót segir safaríkar lygasögur, sem fanga athyglina, þá er þetta pottþétt leikari.  Þó aðeins ef allir áhorfendur samþykkja lygasöguna sem eitthvað betra og hafið yfir sannleikann um stundarsakir. Leikarinn er mjög góður ef áhorfendur gleyma því að þeir þurfa að pissa í svona einn og hálfan klukkutíma.  Hugmyndaflug, innsæi og sköpunargáfur leikarann kallar fram nákvæmlega þessa sömu eiginleika í sérhverjum áhorfenda og úr verður það sem kallast leiklist. 

Þetta samspil er kjarninn.

Til að auka áhrifamátt hans og fjölbreytni hafa tveir og svo fleiri leikarar tekið sig saman og þá hefur þurft að stækka kassann, jafnvel smíða upphækkaðan pall. Síðan hengja upp tjöld til að fela ljótan bakgrunn, reisa  þak út af rigningu, tengja ljóskastara til að vinna á myrkrinu en til að fara hratt yfir þróunarsöguna þá höfum við nú það sem við nefnum leikhús. Þar vinnur gifulegur fjöldi fólks að því að spinna og vefa dýrindis klæði úr engu, líkt og vefararnir í sögunni um nýju fötin keisarans. En ólíkt þeim svindlurum er enginn að svíkja vísvitandi heldur allir að reyna að gera eins vel við leiksýninguna og hægt er.

Öll viljum við að lygasögurnar afhjúpi sannleikann, ef það skyldi mistakast væri ofboðslega frískandi ef áhorfendur myndu taka sér barnið úr sögunni til fyrirmyndar og kalla hátt og snjallt yfir allan salin: „en hann er ekki í neinu”!

Í tilefni af alþjóða leiklistardeginum 2006, Stígur Steinþórsson