Hörður S. Daníelsson fór á frumsýningu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar sl. föstudag og sá Bergmál, verk eftir N. Richard Nash. Leikarar eru Guðrún Sóley Sigurðardóttir og Aldís Davíðsdóttir, en þær sáu einnig um leikstjórn, búninga, leikmynd, ljós og allt annað sem viðkemur sýningunni. Einnig kom Halldór Magnússon við sögu í litlu þögulu hlutverki.

Leikritið sjálft er mjög gott. Gerist á geðveikrarhæli og fjallar um tvær konur sem eru búnar að skapa sinn eigin platheim saman. Verkið kafar í það hvað er raunverulegt í huga okkar og reynt að svara ýmsum spurningum varðandi það. Ég var heillaður af textanum, hvörfunum og dýptinni. Svo var hann súrrealískur stundum sem á vel við mig.

Leikmyndin var skemmtileg. Setið var beggja vegna sviðsins sem opnaði rýmið, svo var spegillinn táknaður með tómu svörtu rými, mjög áhrifaríkt og flott. Ljósið í sýningunni var partur af leikmyndinni, rússneskar perur á stangli, en vel staðsett, því lýsing gerði sitt gagn. Allir leikmunir virtust líka hafa tilgang, hvort sem það voru heyrnatól eða uppblásin barnasundlaug.

bergmal3Leikarar voru með ásetning alveg á hreinu, öll orðin höfðu tilgang og sagan komst til skila. En það hefði mátt fara lengra með það. Sýna manni meira það sem bjó á bakvið orðin, því ég átti erfitt með að tengja mig við karakterana. Kannski það hafi verið af því að leikarar voru að flýta sér með orðin, þéttleiki og að tala hratt er ekki endilega sami hluturinn. Einnig var hlaupið yfir senur sem hefðu þurft að mínu mati meiri hvíld. Því það er mikið drama í verkinu, og margir staðir þar sem áhorfandi þarf smá stund til að átta sig. Einnig áttu leikarar til að hreyfa sig að óþörfu stundum sem gerði leikinn örlítið óhreinni.

Einnig er vert að benda á stutta inkomu Halldórs á sviðið. Hún var látlaus en áhrifarík.

En á heildina litið er þetta ágætis sýning, litast gagnrýnin mín á leik Guðrúnar og Aldísar af því sem það hefði getað orðið. Fannst mér þetta vera með skemmtilegri áhugaleiksýningum sem ég hef séð í gegnum tíðina.

Hörður S. Dan.

{mos_fb_discuss:2}