Sýningar á verðlaunaleikritinu Ökutímar hefjast í Borgarleikhúsinu 2. maí næstkomandi en uppsetning verksins fékk afbragðs viðtökur hjá Leikfélagi Akureyrar á síðasta ári. Ökutímar er margslungið leikrit sem segir þroskasögu ungrar stúlku, Lillu. Fjölskylda hennar er allt annað en venjuleg. Mamma og amma keppast við að leggja henni lífsreglurnar. En er Peck bara góður frændi þegar hann býðst til að kenna henni á bíl?
Ökutímar er áleitið leikrit sem fjallar um svik, ást og fyrirgefningu og tekur á viðkvæmu máli á óvenjulegan hátt. Hér er á ferðinni þroska- og fjölskyldusaga sem fær áhorfendur til að súpa hveljur en er þó drifin áfram af heillandi húmor.
Ökutímar voru frumfluttir í New York árið 1997 og fékk leikverkið Pulitzer-verðlaunin 1998. Uppsetning LA hlaut afar jákvæða dóma og mikla aðsókn á Akureyri og starfsfólk Borgarleikhússins hefur fundið fyrir miklum spenningi fyrir sýningum verksins í Reykjavík. Rétt er að benda á að sýningartími er takmarkaður en verkið verður eingöngu sýnt í einn mánuð.
Þröstur Leó Gunnarsson fékk Grímuverðlaun fyrir frammisöðu sína í sýningunni og tónlistarkonan Lay Low hlaut Íslensku leiklistarverðlaunin, Grímuna, fyrir tónlistina sem hún samdi fyrir uppsetninguna. Sökum mikilla anna getur hún ekki tekið þátt í Ökutímum í þetta skiptið, þó glöð vildi, því árið er orðið undirlagt af kynningar og tónleikaferðum erlendis. Það er önnur glæsileg tónlistarkona, Ragnheiður Gröndal, sem tekur við keflinu af Lovísu og flytur tónlistina í sýningunni. Ragnheiður er ein allra vinsælasta tónlistarkona landsins sem hefur heldur betur slegið í gegn á síðustu árum með seiðandi rödd sinni og stórfínum lagasmíðum og mun án efa standa sig með glæsibrag líkt og Lovísa.
{mos_fb_discuss:2}