Lýðveldisleikhúsið sýnir Út í kött! nýjan dans og söngleik fyrir börn í Hafnarfjarðarleikhúsinu um helgina, alls þrjár sýningar og eru þær liður í hátíðinni Björtum dögum. Verkið er ævintýraleikur fyrir börn á öllum aldri og fjallar um tvo krakka og ferðalag þeirra um tölvu og ævintýraheima. Leikin atriði mynda skemmtilega umgjörð utan um söng- og dansatriði þar sem ævintýrapersónur í litríkum búningum bregða á leik.
Leikritið fjallar um strákinn Erp sem neyðist til að taka á móti dóttur vinafólks foreldra sinna inn í herbergið sitt. Helga Soffía er hress og hraðlýgin og kann frá mörgu undarlegu að segja. Erpur á erfitt með að sætta sig við þennan gest sinn, enda snýr hún heimi hans, þar sem hetjur teiknimynda og tölvuleikja eru karlmenn, á hvolf. Með fjörugu ímyndunarafli sínu nær hún að sýna honum að tilveran þarf ekki að vera niðurnjörvuð í fyrirfram ákveðin hólf og kassa. Sögur Helgu Soffíu eru þrjú Grimms-ævintýri byggð á útgáfum Roalds Dahl og fléttast þau inn í leikverkið með tónlist, dansi og söng. Þar birtast Rauðhetta, Öskubuska, prins, úlfar og grísir en Rauðhetta er enginn ráðvilltur sakleysingi sem lætur éta sig mótþróalaust og Öskubuska áttar sig á að hamingjan felst ekki í því einu að vera fótnett og fríð.
Tvö tólf ára börn fara með hlutverk Erps og Helgu Soffíu, þau Fannar Guðni Guðmundsson og Sóley Anna Benónýsdóttir, Ragnheiður Árnadóttir söngkona fer með hlutverk sögumanns, og leikararnir og dansararnir Guðmundur Elías Knudsen og Kolbrún Anna Björnsdóttir fara með hlutverk geimskrímsla og ýmsra ævintýrapersóna t. d. Rauðhettu og úlfsins og Öskubusku og prinsins, en Kolbrún er einnig leikstjóri. Benóný Ægisson er höfundur handrits, semur tónlistina og þýðir kvæði Roald Dahl, Sigríður Ásta Árnadóttir gerir búningana en Kristrún Eyjólfsdóttir leikmyndina.
Út í kött! verður sýnt sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu í Hafnarfirði laugardaginn 6. júní kl 14 og 16 og sunnudaginn 7. júní kl. 14. Nánari upplýsingar eru á vef Lýðveldisleikhússins www.this.is/great