Uppsprettan verður haldin í annað sinn í Tjarnarbíói mánudaginn 7. apríl.
Formið er þannig að leikarar og leikstjórar fá ný stuttverk til að vinna með sólarhring fyrir sýningu. Þau hafa því einungis þennan eina sólarhring til að kynna sér handritið og átta sig á möguleikum þess.
Þremur tímum fyrir sýningu hittast listamennirnir í fyrsta sinn og byrja æfingar.

Æfingarnar eru opnar almenningi. Frá kl. 18.00-21.00 geta gestir komið í Tjarnarbíó og kíkt inn á þær æfingar sem eru í húsinu, velt fyrir sér vinnuaðferðum og ákvarðanatökum í sambandi við verkið, jafnvel lesið verkin sjálfir og velt þeim fyrir sér. Inn á milli er hægt að gæða sér á veitingum og veigum á barnum og spjalla við aðra gesti á meðan tónlistarmenn leika ljúfa tóna.

Verkin verða svo sýnd að æfingu lokinni, eða kl. 21.00. Eftir sýninguna býðst gestum að viðra sínar hugmyndir og vangaveltur og spyrja aðstandendur sýninganna að öllu því sem þá þyrstir að vita.

Uppsprettan er því kjörið tækifæri til að skyggnast á bak við tjöldin sem og að kynnast nýjum leikskáldum, leikstjórum og leikurum.

Miðaverð er einungis 500 kr. og hægt er að nálgast miða á midi.is eða á tjarnarbio.is.