Ungmennafélag Reykdæla í Borgarfirði fagnar 100 ára afmæli sínu í apríl næstkomandi. Stærsta verkefni félagsins á afmælisári, auk útgáfu afmælisrits, er uppfærsla leikritsins Þið munið hann Jörund, eftir Jónas Árnason. Ævintýrið um Jörund hundadagakonung er bráðskemmtilegt söng- og gamanleikverk. Það var fyrst fært upp í Iðnó árið 1970 og hefur síðan verið viðfangsefni margra áhugaleikfélaga um land allt, meðal annars UMFR árið 1980. Í leikritinu koma margar frábærar persónur við sögu og ekki spilla lögin fyrir sem eru skosk- og írskættuð, bráðfjörug og falleg enda sum hver fyrir löngu orðin sígild.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari, samdi leikgerð og er leikstjóri verksins. Að sýningunni kemur fjöldi fólks víða að úr Borgarfirði enda er um fjölmennt verk að ræða. Í samtali við blaðið Skessuhorn sagði Guðmundur Ingi að æfingar gengju vel, í það minnsta þegar veður setti ekki strik í æfingar. „Við erum núna búin að vera að meira og minna frá áramótum og þetta gengur alveg prýðilega. Það er gaman að segja frá því að gott samstarf hefur nú tekist á milli leikfélaganna í héraðinu og hér leggja m.a. áhugaleikarar úr Lundarreykjadal, Hálsasveit og Andakíl auk Reykdælinga sjálfra, gjörva hönd á plóg. Þetta er mannfrekt verk og viðamikið og því gott að margir taki höndum saman. Aðalhlutverkið, Jörundur hundadagakonungur, er í höndum Arnoddar Magnúsar Danks, en hann er lærður leikari og kemur feykilega sterkur inn,” sagði Guðmundur Ingi. Stefnt er að frumsýningu á Jörundi í byrjun marsmánaðar í Logalandi.

Til gamans má geta þess að þrír bræður, Péturssynir frá Geirshlíð í Flókadal, fara með stór hlutverk í uppfærslu UMFR á Jörundi. Á myndinni eru þeir allir samankomnir í atriði þar sem kapteinn Alexander Jones (Guðmundur) gengur á milli þeirra Charlie Browns (Jón) og guvenors Trampe greifa (Pétur).

{mos_fb_discuss:2}