Þann 6. október sl. var Margt smátt, stuttverkahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga haldin í Borgarleikhúsinu með pompi og prakt. Að þessu sinni tóku sex leikfélaög þátt, Freyvangsleikhúsið, Halaleikhópurinn, Hugleikur, Leikfélög Kópavogs og Mosfellssveitar og Leikfélagið Sýnir. Að venju var fengin fagmaður til taka út hvert til tókst og þetta árið var það leikkonan og leikstjórinn Harpa Arnardóttir sem tók að sér þetta krefjandi hlutverk.

Hugleiðing til leikarans.
Orðið amatör er dregið af orðinu amor, ást, sá sem elskar það sem hann er að gera. Orðið áhugaleikari, sá sem hefur áhuga á að leika.

Listin að setja sig í spor annarra er forsenda fyrir sálarheill, leið að hamingju, í henni felst nánd við lífið. Með því að dvelja í öðrum fáum við tímabundið frí frá okkur sjálfum og komum oft reynslunni ríkari úr þeim leiðangri, með dýpri skilning á eigin eðli. Til þess að setja sig í spor annarra þarf fyrst og fremst ást og áhuga á manneskjunni/persónunni og mannlegu eðli.

Góður leikara elskar mennina, ber lífið fyrir brjósti. Í ást sinni öðlast hann skilning sem fleytir honum inn á dýpri svið tilverunnar. Góður leikari spyr spurninga, hikar ekki við að gera mistök, veigrar sér ekki við óvissunni. Hann er samvinnufús, forvitinn og samkvæmur sjálfum sér. Góður leikari hefur hugrekki til að reyna að elska náungann eins og sjálfan sig, þ.e. sjá náungann í sér.

harpaarnar.jpg

Þannig heldur hann andstæðunum sýnilegum í sama augnablikinu persónunni og sjálfum sér, sorginni og gleðinni, ljósinu og myrkrinu og svo framvegis. Barátta andstæðnanna framleiðir afl sagði í Draumleik eftir Strindberg einhversstaðar. Því dýpri sem þessi skilningur er þeim mun dramatískari eða kómískari verður nærvera á sviði.

Þess vegna er það einstök upplifun að fara og sjá áhugamannasýningar og sjá og skilja hversu mikil þekking leikmannsins er á þessu sviði. Börn geta leikið, fullorðnir geta leikið, gamalt fólk getur leikið, smiðir geta leikið, forsætisráðherrar geta leikið, sjómenn geta leikið, leikskólakennnarar geta leikið. Allir geta leikið ef þeir brenna af ást og áhuga. Það er frábært.

Hvar er áhugaleikhúsið statt og hvernig getur það orðið betra?

Þegar ég ber saman fyrstu stuttverkahátíðina og þessa þá er ljóst að gæðin eru jafnari og hafa aukist. Öll verkin áttu erindi og voru unnin af heilindum. Greinilegt er að nú er list leikarans, leikstjórans og rithöfundarins allsráðandi. Tónlist notuð víða en frekar sparlega. Leikmynda- og búningavinnu er stillt í hóf af ásettu ráði, þar sem mikil vinna fór í skiptingar á sviði hér áður fyrr. Hugsanlega kemur það niður á skýrri konseptvinnu sýninganna og mættu leikstjórar nýta sér þennan þrönga ramma betur. Fleiri verk risu hátt á fyrstu hátíðinni og örfá áttu varla heima þar (þó var valið inn á hátíðina sem mér skilst að sé ekki gert núna) Nú standast öll verk lágmarkskröfur og vel það.

Ég dreg þá ályktun að skólinn góði í Svarfaðardalnum sé að skila sínu svo um munar. Er unun á að horfa þegar vel tekst til. Skólinn gefur öryggi og færir listamönnum ástarinnar (amatörunum) þekkingu til að nálgast listræna drauma sína. Það má segja að komið sé að sunnudegi til sælu. Allt er harla gott, þá er hættan sú að leggjast með tærnar upp í loft og halda að þetta sé bara gott. En gott getur batnað mikið!

Dreyma þarf djarfari drauma, skrýtnari drauma, villtari drauma, einfaldari drauma. Fara lengra og halda andstæðunum skýrar á lofti. Gera meiri kröfur, barna hugmyndirnar. Leita. Rannsaka. Treysta. Margir áhugaleikarar leika mikið og vinna mikið með sama fólkinu. Þá getur myndast sama hætta og í atvinnuleikhúsunum. Leikarar lenda í skúffum. Leikstjórar eru ánægðir með það sem þeir vita og þekkja að leikarinn getur gert. Leikstjórinn hreinlega veit ekki hversu vel leikarinn getur leikið. Er ánægður með gott þegar hann getur fengið frábært. Spurningin er hvernig geta leikstjórarnir ögrað leikurunum sínum svo þeir haldi áfram að koma sjálfum sér á óvart, þroskast, vaxa og dafna.

Það er niðurstaða mín að helstu sóknarfæri áhugaleikfélaganna felist í leikstjórunum. Leikstjórinn er oftar en ekki dreymandinn, hann gefur tóninn, velur leiðina. Bandalagsskólinn hefur alið af sér fjölmarga frábæra leikstjóra. Nú þarf að hlúa að þeim, veita þeim tækifæri, aðhald og frelsi til að láta drauma sína rætast.

Hugleikur
Munir og minjar
Höfundur: Þórunn Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Rúnar Lund
Áslaug – Fríða Bonnie Andersson

Skemmtileg samtímaheimild
Hátíðin byrjaði á þessu skemmtilega verki sem mér finnst ákaflega vel skrifað, Það er pólitískt og fyndið, leikstýrt af innsæi og hlýju. Þokkafullur leikur hjá Fríðu sem skapar einlæga og kómíska persónu, mjög svo trúverðuga. Þetta er „skemmtileg samtímaheimild eins og segir í verkinu, skondin og vel heppnuð byrjun á stuttverkahátíðinni.

Leikfélagið Sýnir
Hamar
Höfundur og leikstjóri: Hörður Skúli Daníelsson
Bóndasonur Stefán Bjarnason
Prestsonur Karl Már Lárusson
Álfhildur Hera Guðbrandsdóttir
Álfhulda Jenný Lára Arnórsdóttir
Sögumaður Elfa Dröfn Stefánsdóttir
Hljóðfæraleikur Helga Ragnarsdóttir

Þjóðsögufarsi, ærslafullur og vandaður
Skemmtilega skrifaður farsi, vönduð uppsetning en hefði mátt vinna betur með situationir þannig að hlustun leikaranna hefði notið sín betur í hraðanum. Stefán Bjarnason er hæfileikaríkur leikari með mikla túlkunarmöguleika, leikstjóri hefði getað hjálpað honum meira með því að gefa honum styrk til að dvelja betur í kringumstæðunum og treysta, eins og þegar hann stal stjakanum í fyrsta skipti, þar var hann alveg frábær. Þau gæði hefði verið hægt að fá í fleiri situationir.

Leikfélag Kópavogs
Jesús getinn
Höfundur og leikstjóri: Bjarni Baldvinsson
Guð Bjarni Baldvinsson
María Guðrún Sóley Sigurðardóttir
Djöfullinn Gísli Björn Heimisson

Skrítið, djarft, óskýrt
Innihaldið í þessu verki er ákaflega ögrandi, að fjalla um barnaníðinga með því að persónugera samskipti Guðs og Maríu er í hæsta máta djarft! Þar sem djarflega er riðið þarf að halda fast um tauminn, boðskapur verksins er óskýr og missir marks. Þannig fannst mér endirinn ekki ganga upp, Djöfullinn kemur inn, María hrífst af honum. Ég skora á höfundinn að skerpa verkið ef sýningar verða fleiri. Samleikur þeirra Bjarna og Guðrúnar þótti mér mjög góður og situationir vel útfærðar. Einnig var ég hrifin af búningum.
Halaleikhópurinn
Uppihvað?
Höfundur: Hjólastólasveitin
Leiðbeinandi: Ágústa Skúladóttir
Hjólastólasveitin Örn Sigurðsson, Kolbrún Dögg Krstjánsdóttir, Guðríður Ólafsdóttir, Leifur Leifsson

Eðalhúmor, gæðaleikur, algjör snilld!
Hér fór stuttverkahátíðin á flug! Uppistand í hæsta gæðaflokki. Örn hóf flugið með glæsibrag frábærar tæmingar, fylgdi svo hver á fætur öðrum; Kolbrún heillandi, Guðríður með glimt í auga og Leifur frábær.
Hér laðar leikstjóri fram gæðaleik og eðalhúmor – leikandi snilld. Frábær vinna hjá Ágústu. Eina sem ég get rýnt til gagns í þessu er það hefði kannski alveg mátt sleppa að stetja karaketer ofaná hjá Guðríði, en reyndar var það sjarmerandi og kom ekki að sök.

Hugleikur
Fyrir
Höfundur: Hrefna Friðriksdóttir
Leikstjóri: Kristín Nanna Vilhelmsdóttir
Jón – Jón Geir Jóhannesson
Embla – Anna Bergljót Thorarensen
Hljófæraleikur – Gunnar Ben

Hver ertu eiginlega?
 Hér sannast hið fornkveðna að maður er manns gaman. Sjálfsmorðstilraun rennur út í sandinn þegar einverunni er rústað. „Hver ertu eiginlega, spyr maðurinn og sannarlega eru það tilvistarspurningarnar sem hér ráða ríkjum; hver er tilgangurinn með þessu lífi? Þetta er lunkið verk og leynir á sér, leikararnir eru hæfileikaríkir og fóru vel með sitt. Þó held ég að leikstjórinn hefði getað náð meira út úr leikurunum með því að hvetja þau til að hvika hvergi frá kringumstæðunum hið innra. Hver er þessi tiltekna kona og hver er saga þessa manns? Með þvi að vinna meira með undirtextann hefði verið hægt að fara lengra í annars vandaðri vinnnu.

Leikfélag Mosfellssveitar
Þennan dag
Höfundur, leikstjóri og höfundur tónlistar: Sigrún Harðardóttir
Leikari – Matthías Ingiberg Sigurðsson

Innlifun
Hér mæðir á leiknum og skilaði Matthías sínu með sóma. Hann gaf sér tíma til að lifa sig inn í aðstæður og treysta þeim heimi sem til verður á sviðinu. Þetta verk fangaði athygli mina og eiga allir sem að því koma hrós skilið.

Hugleikur
Þriðji dagurinn
Höfundur: Sigurður H. Pálsson
Leikstjórn: Hópurinn
Stulli Hjalti Stefán Kristjánsson
Villi Einar Þór Einarsson
Lalli Sigurður H. Pálsson
Gilli Hilmar Valur Gunnarsson

Geggjað! Gaman!
Þetta verk kom mér mest á óvart, það var alveg geggjað þegar páskaföndrið byrjaði, karlar að rúlla egg með málningarrúllu og mála með stórum pennslum í sannkallaðri föndurstund og saumaklúbbaanda. Frábær vinna með situationir. Leikarar þeir Hjalti, Einar, Sigurður og Hilmar hvíldu mjög vel í persónunum og þekktu þær greinilega vel. Samleikurinn var alveg til fyrirmyndar og það allra besta í þessu voru gerðirnar á sviði. Orginal og mjög svo spennandi vinna.

Hugleikur
Verðum í bandi
Höfundur: Árni Friðriksson
Leikstjóri: Sigurður H. Pálsson
Stúlka Anna Bergljót Thorarensen
Maður Hjörvar Pétursson

Hér er fjallað um leiki og völd, og leikarar hafa gott vald á sínu
Enn og aftur vel gert hjá leikurunum í Hugleik. Höfundur snýr áhorfandanum í hringi, kemur honum á óvart. Anna Bergljót var frábært dýr á fjórum fótum og samleikur þeirra Hjörvars mjög skemmtilegur. Flott þegar hann varð svona agressívur í pabbahlutverkinu.

Leikfélagið Sýnir
Og hefi ég þann sopa sætastan sopið
 Höfundur: Hrund Ólafsdóttir og leikhópurinn
Leikstjóri: Hrund Ólafsdóttir
Sólveig eldri Rósa Björg Ásgeirsdóttir
Sólveig yngri Guðrún Sóley Sigurðardóttir
Álfur Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Bóndinn, eiginmaður Sólveigar Sigurjón Jónsson
Móðir bóndans Sigríður Birna Valsdóttir
Hljóðfæraleikur Helga Ragnarsdóttir og Vera Sjöfn Ólafsdóttir

Samleikur og sannleikur á sviði
Hér fóru leikarar á kostum í einfaldleika og trausti á augnablikið hér og nú og því sem er raunverulega að gerast milli persónanna á sviðinu. Leikarar hvíldu vel í sögunni. Samleikur þeirra Guðrúnar og Sveins var mjög sterkur, sömu sögu má segja um Rósu og Sigríði í sínu. Það var eitthvað svo fallegt að sjá einlæga og einfalda þjóðsögu unna af nálægð og dýpt. Tónlistin líka til sóma svo og leikstjórn. Frábær hópvinna.
Freyvangsleikhúsið
Hlé!
Höfundur: Hjálmar Arinbjarnarson
Leikstjóri: Daníel Freyr Jónsson
Clive Pálmi Reyr Þorsteinsson
Betty/Gerry Sindir Svan Ólafsspn
Edward Steingrímur Magnússon
Harry/Martin Ingibjörg Ósk Pétursdóttir
Ellen/Cathy Friðbjörg Sigurjónsdóttir
Frú Saunders/Betty Elísabet Katrín Friðriksdóttir
Sýningarstóri Hjálmar Arinbjarnarson

Gott grín, góð hugmynd mætti reyna meir á þanþolið
Skemmtilegur fannst mér galsagangurinn í þessu verki og möguleikarnir margir. Mér fannst ekki ganga alveg upp að vera með sumt alvöru (eins og bananann í buxunum, mjög skemmtilegt) og svo annað í þykjustunni eins og sminkið. Það hefði verið gaman að vera með hárlakksbrúsana, púðrið, varalitina og svo framvegis. Ögra uppsetningunni aðeins meira, jafnvel vinna meira með rýmið, hafa það t.d. alltof lítið. Leikarar áttu góða spretti. Mér finnst heilmikil sóknarfæri í þessu skemmtilega leikriti og gætu leikarar stúderað nákvæmar smáatriðin baksviðs og persónulegar tengingar fólksins. Sem sagt það mætti reyna á þanþolið hér. Gaman að fá almennilegan prumpubrandara.

Hugleikur
Hver er þessi Benedikt?
Höfundur: Júlía Hannam
Leikstjóri: Kristín Nanna Vilhelmsdóttir
Hrefna Anna Bergljót Thorarensen
Alda Ásta Gísladóttir

Samverustund nútímans skemmtileg persónusköpun!
Flott hugmynd. Anna Bergljót hristir hér fram úr erminni mjög svo skemmtilega og trúverðuga persónu vel gert! Spurning hvort hægt hefði verið að útfæra tölvuvinkonuröddina betur, textinn hreinlega heyrðist ekki nógu vel! Verkið vekur til umhugsunar um tölvuheim og farsímakynslóð þar sem samskipti fara meira og minna fram í gegnum tæki.

Hugleikur
Pappírspési
Höfundur og leikstjóri: Unnur Guttormsdóttir
Pési Róbert Steindór Steindórsson
Tré Keith Hayward
Grár köttur Fríða Bonnie Andersen

Hjartnæmt, á erindi í skóla
Stuttverkið Pappírspési er tilvalin jarðvegur fyrir umræður. Það væri frábært að fara með það í skóla og ræða svo um einelti á eftir. Verkið er vandað, vel skrifað, aðgengilegt og einfalt með mjög svo skemmtilegri notkun á tónlist. Hrífandi þó ekki síst vegna þess hve Róbert skilaði leik sínum á látlausan og fallegan hátt.

Leikfélag Mosfellssveitar
Hverjum ætti að refsa?
Höfundur og leikstjóri: Agnes Þorkelsdóttir Wild
Leikarar Bjarni Árdal Bergsteinsson, Egill Kaktus Þorkelsson Wild og Sigrún Harðardóttir

Hugsun okkar ögrað – gott!
Verkið veltir upp siðferðilegum spurningum vel gert hjá höfundi og leikstjóra og leikarar skiluðu sín vel. Maður vinnur fyrir sér með því að fullnægja konum, misskilningur verður þegar hann kemur á heimili þar sem konan hefur líklegast pantað iðnaðarmann, hann afklæðir sig í stofunni og hún kemur að honum, fær sjokk, hendir honum út og hann meiðist liggur í blóði sínu og hún hjálpar honum ekki. Hann er lokaður inni, sjálfsagt fyrir kynferðislegt áreiti en í raun var það stúlkan sem réðst á hann.

Hugleikur
Næturstaður
Höfundur: Sigurður H. Pálsson
Leisktjóri: Árni Friðriksson
Kristín Júlía Hannam
Hafsteinn Guðmundur Erlingsson
Móttökustjóri Þórarinn Stefánsson

Heillandi
Þessi þáttur heillaði mig og fangaði athygli mín. Þau Júlía og Guðmundur áttu frábæran samleik, hlustun og nærvera til fyrimyndar og verkið einhvern veginn heillandi. Leikstjórnin líka góð. Flottur endir, semsagt flott.

Hugleikur
Mikið fyrir börn
Höfundar: Þórunn Guðmundsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir
Höfundur tónlistar: Þórunn Guðmundsdóttir
Höfundar söngtexta: Þórunn Guðmundsdóttir, Þórunn Harðardóttir og Sævar Sigurgeirsson
Leisktjóri: Hrefna Friðriksdóttir
Sögumaður Þórunn Guðmundsdóttir
Frúin Anna Bergljót Thorarenssen
Sveinninn Sigurður H. Pálsson
Tóta litla Björk Níelsdóttir
Píanóleikari Björn Thorarensen

Flott, Flott, Flott!
Að lokum „Mikið fyrir börn“ a la Hugleikur. Flott flott flott! Það er eitthvað ómótstæðilegt við Hugleik og rímið og sönginn og gálgahúmorinn. Börnin étin með bros á vör, enda orðin heimtufrek í neysluheimi. Mjög skemmtilegt, hnittið og fyndið, vönduð uppfærsla, vel leikið og vel leikstýrt. Enn kemur Anna Bergljót á óvart syngur eins og engill og felur klaufarnar í skónum í hlutverki Frúarinnar og ekki var þá Sveinki síðri í túlkun Sigurðar og Björk túlkaði Tótu litla af ástríki, rúsínan í pylsuendanum er svo Þórunn Guðmundsdóttir fjöllistakonan mikla, sem hvergi slær feilnótu.

Harpa Arnardóttir

{mos_fb_discuss:2}