Það verður mikið um að vera í leikhúsinu Norðurpólnum á Seltjarnarnesi um helgina því þar verða tvær leiksýningar frumsýndar. Laugardaginn 24. apríl frumsýnir leikhópurinn Börn Loka Glerlaufin eftir Philip Ridley í leikstjórn Bjartmars Þórðarsonar og sunnudaginn 25. apríl verður svo leikritið Tveir fátækir pólskumælandi Rúmenar eftir Dorota Maslowska í leikstjórn Heiðars Sumarliðsonar frumsýnt. Norðurpóllinn er að Sefgörðum 3, nálægt Gróttu.

Glerlaufin er öflugt breskt nútímaleikrit eftir hinn margrómaða höfund Philip Ridley. Hann hefur skrifað fjölda leikrita og hlotið fjölmörg verðlaun fyrir skrif sín.

Verkið fjallar um tvo ólíka bræður, Steven og Barry. Steven fetar beinu brautina og á hið fullkomna heimili. Barry er svarti sauður fjölskyldunnar, drykkfelldur listamaður sem hefur valdið móður þeirra sárum vonbrigðum. Þó segir yfirborðið ekki allt, því þegar kafað er dýpra birtast draugar fortíðar og þaggaður sannleikurinn sem er of sársaukafullur til að þola dagsljósið. Hvað er satt og hvað er logið? Hver er saklaus og hver er sekur? Hvert er leyndarmál glerlaufanna?

Leikstjóri er Bjartmar Þórðarson og aðstoðarleikstjóri Þóra Karítas Árnadóttir. Leikarar í verkinu eru Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Jóel Sæmundsson, Ólafur S.K. Þorvaldz og Vigdís Másdóttir.  Tónlist er í höndum Védísar Hervarar og ljósahönnuður er Arnar Ingvarsson.

Sérstakt tilboð til hópa á sýninguna, 8 manns eða fleiri fá miðann á 1.900 kr. Hóppantanir í síma 772-5777 eða hjá midi.is í síma 540-9800.

Tveir fátækir pólskumælandi Rúmenar fjallar um tvo fátæka pólskumælandi Rúmena, sem um hávetur ferðast á puttanum um pólska sveit. Þau skilja eftir sig sviðna jörð hvert sem þau fara, en þó fer tveimur sögum um hvað nákvæmlega gerðist í raun og veru.

Ofbeldisfullt sýrutripp í gegnum Pólland nútímans sem er einskonar samblanda af ferðalagi Maríu Meyjar og Jóseps til Betlehem, Natural Born Killers, Fear and Loathing in Las Vegas, Bertholt Brecht og Samuel Beckett.  
Verkið er eftir Dorota Maslowska, fremsta unga rithöfund Póllands í dag. Það sló rækilega í gegn þegar það var frumsýnt í Póllandi og hefur í kjölfarið verið sýnt um víða veröld. Sýningin er ekki við hæfi barna.

Leikstjóri verksins er Heiðar Sumarliðason, en uppsetningin er upphaflega hugmynd hans og Hannesar Óla Ágústssonar (sem leikur aðalhlutverkið) sem kviknaði eftir að Hannes lék í uppsetningu Heiðars á Rándýr á ArtFart síðasta sumar.

Aðalhlutverk: Hannes Óli Ágústsson, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Aðalbjörg Árnadóttir, Vigdís Másdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson
Höfundur: Dorota Maslowska
Leikstjóri: Heiðar Sumarliðason

{mos_fb_discuss:2}