Verkin Kyrrja og Þáðarhaft eftir Ragnheiði Bjarnarson verða sýnd í Nýlistasafninu laugardaginn 26. júní kl. 18.00 (Þráðarhaft) og sunnudaginn 27. júní kl. 14.00 (Kyrrja). Verkin eru sýnd í samstarfi við listhátíðina Jónsvöku sem fer fram næstkomandi helgi.
Kyrrja var frumsýnt 20. maí sl. og Þráðarhaft var lokaverkefni Ragnheiðar frá Listaháskóla Íslands, en hún hefur sett verkið í nýjan búning og sýnir það þannig á laugardaginn.
Ragnheiður Bjarnarson útskrifaðist af dansbraut Listaháskóla Íslands vorið 2009. Hún var í fyrsta útskriftarárgangnum frá brautinni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ragnheiður unnið við danslistina í fjöldamörg ár. Hún er meðlimur í danshópnum Íslensku Hreyfiþróunarsamsteypunni, en hópurinn var tilnefndur til Grímuverðlauna árin 2009 og 2010.
Í september mun Ragnheiður frumsýna annað verk en það verkefni hefur hlotið styrki frá Barnamenningarsjóði og Mosfellsbæ.
Um verkin:
Þráðarhaft
Þú veist ekki hvenær það mun gerast.
Þær eru út um allt og sniglast allt um kring.
Höldum áfram og fylgjum þræðinum.
Kannski við sjáum litina, verurnar, dúfurnar.
Er þetta raunverulegt eða einn stór galdur?
Hvað gerist ef persónueinkenni eru tekin í burt?
Erum við enn þá sama manneskjan og áður eða erum við breytt?
Sýna okkar persónulegu einkenni hvaða innri mann við berum?
Kyrrja
Skynjum við litbrigði martraða?
björt sem mjöll
rjóð sem rós
tinnusvört
Komdu á vit ævintýranna – og ef þú rýnir vel gæturðu séð engla…
Er tvískiptur heimur nauðsynlegur til að skilja jafnvægið á milli þeirra?
Eru hinir samfélagslega illu eins vondir og við viljum halda?
Eru þeir illu að reyna að fá okkur til að horfast í augu við okkur sjálf?
Hvað kraumar undir hinu góða yfirborði?
Hvað gerist ef prinsessan deyr?
Frítt er inn á verk Ragnheiðar sem og aðra listviðburði hátíðarinnar Jónsvöku.
Athugið aðeins þessar tvær sýningar.
Nánari upplýsingar eru að finna á jonsvaka.is og á fésbókar síðu Jónsvöku.