Leikfélag Siglufjarðar frumsýnir á morgun, föstudaginn 22. febrúar, ærslafulla gamanleikinn Tveggja þjónn eftir Carlo Goldoni í leikstjórn Elvars Loga Hannessonar.

Hér er á ferðinni bráðfjörugur ítalskur leikur sem fjallar um þjóninn Eldibrand sem lendir í því að þurfa að þjóna tveimur herrum samtímis.

 

tveggja-thjonn.jpgFrumsýning er sem fyrr segir föstudaginn 22. febrúar kl. 20:30 í Bíó Café og önnur sýning laugardaginn 23. febrúar kl. 20:00. Næstu sýningar verða föstudaginn 29. febrúar kl. 20:30 og fimmtudaginn 6. mars verður barna og unglingasýning kl. 20:00. Gert er ráð fyrir fleiri sýningum en þær verða auglýstar síðar.

Leikarar eru 12 talsins en fjöldi manns hefur lagt leikfélaginu lið við þessa uppsetningu. T.a.m. fékk L.S. til liðs við sig unglinga í leiklistarvali í 9. bekk Grunnskóla Siglufjarðar og hafa þau staðið sig fádæma vel. Mikill áhugi er hjá krökkunum en þau leika, sjá um tæknimál og hafa aðstoðað við æfingar. Eiga þau mikið hrós skilið fyrir elju og dugnað.

Smá fróðleikur um leikinn
Leikurinn Tveggja þjónn er saminn í leikstíl og leikformi er nefnist Commedia dell’Arte. Um er að ræða ítalskt leiklistarform sem hóf göngu sína um miðja sextándu öld og naut vinsælda í meira enn eina öld. Formið er hinsvegar ekki til í dag sem slíkt þó persónur og tækni formsins hafi lifað og megi sjá í mörgum verkum eins og Tveggja þjónn. Það sem er einna merkilegast við kómedíuformið er að þar var aldrei notast við handrit. Aðeins var stutt lýsing á leiknum og atburðarásinni svo sáu leikararnir um restina. Sýningar voru undir berum himni og voru sýningar fluttar af sérstökum kómedíuhópum með tíu leikurum eða svo sem ferðuðust um landið með sýningar sínar. Leikmynd var svo gott sem enginn og einnig voru leikmunir af skornum skamti. Síðast en ekki síst voru ákveðnar persónur í kómedíuforminu og var venjan sú að sami leikarinn lék sömu persónuna alla sína ævi. Þar er sennilega komin ástæða fyrir því að flokkarnir gátu leikið hvert stykkið á fætur öðru án þess þó að hafa fullkomið handrit. Kómedíupersónurnar áttu sér stoð í samtímanum, þannig kom kaupmaðurinn Pantalone frá Feneyjum og þjónninn Arlecchino frá Bergamo. Báðar þessar persónur koma við sögu í Tveggja þjónn en í þessari uppfærslu eru þeim gefin íslensk nöfn. Pantalone verður Prjónólfur og Arlecchino verður Eldibrandur. Aðrar þekktar kómedíupersónur sem koma við sögu í leiknum okkar eru þjóninn Brighella sem við nefnum Brynhildi en þessi þjónn er ólíkur Eldibrandi að því leiti að hann er hærra settur og er oft eigandi veitingastaðar. Að síðustu er það læknirinn Il Dottore sem við nefnum Lon og Don. Þó kómedíuformið sjálft sé týnt og tröllum gefið þá lifa persónur þess enn góðu lífi eins og hægt er að sjá þessari uppfærslu.

Miðaverð
Fullorðnir 2.000 kr.
Börn (til 12 ára) 1.500 kr
Eldri borgarar 1.500 kr

Miðapantanir eftir kl 16:00 í símum:
863-1706 Ella – 892-1741 Ingibjörg – 849-5384 Víbekka