Hugleikur hóf vetrarstarf sitt í Kaffileikhúsinu þann 14. október með fimm einþáttungum eftir fjóra félagsmenn. Þættirnir voru frumsýndir á mánudegi og önnur og jafnframt síðasta sýning var daginn eftir. Ætlunin er að bera annan slíkan skamt á borð í nóvember og þann þriðja með jólaívafi í desember. Útsendari Leiklistavefjarins var á staðnum.
Hugleikur hóf vetrarstarf sitt í Kaffileikhúsinu þann 14. október með fimm einþáttungum eftir fjóra félagsmenn. Þættirnir voru frumsýndir á mánudegi og önnur og jafnframt síðasta sýning var daginn eftir. Ætlunin er að bera annan slíkan skamt á borð í nóvember og þann þriðja með jólaívafi í desember. Í fyrra setti félagið svipaða dagskrá á svið í Iðnó undir heitinu „Sjö sortir“. Var þar um yfirlýsta tilraunastarfsemi að ræða þar sem höfundum og leikstjórum innan félagsins gafst tækifæri til að spreyta sig í nafni félagsins. Undirritaður fjallaði einnig um þá sýningu og lofaði það framtak Hugleiks að gefa nýjum höfundum og leikstjórum möguleika á að reyna sig á slíkum vettvangi. Sortirnar sjö báru sumar þess merki að vera einmitt tilraunir en inn á milli leyndust skínandi hlutir. Dagskráin í ár sem ber heitið „Þetta mánaðarlega“ hefur enga slíka fyrirvara og er því fjallað um hana sem slíka.

Fyrst á svið var einleikur eftir Fríðu B. Andersen sem bar heitið „Um ástina“ í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar. Jón E. Guðmundsson lék þar mann sem rifjar upp skrýtna og skemmtilega minningu um ástina. Þátturinn var fyndinn og höfundur stóðst þá algengu freistingu að teygja smellna hugmynd lengra en efni stóðu til. Jón gerði persónunni ágæt skil. Það er ekki heiglum hent að standa einir á sviði og eiga ekki vísan stuðning samleikara. Ef satt er sem ég heyrði að um frumraun hans á sviði hafi verið verið ræða á hann mikið hrós skilið fyrir sinn hlut. Leikstjórn einleikja er ekki síður vandasöm en leikurinn sjálfur. Stuttir þættir kalla yfirleitt á skýrari línur og framsetningu en þeir sem lengri eru. Sagan var hér látin njóta sín og gekk það vel upp í svo stuttum þætti. Notkun lýsingar og hljóðs í lokin fannst mér þó ekki til bóta og gerðu endinn ómarkvissari fyrir vikið. Heilt yfir var þetta stutt og skemmtileg minning.

Næst tók við öllu meiri hasar í vöruafgreiðslu flutningafyrirtækis. Einar Þór Einarsson og Jón Örn Bergsson léku unga og ábyrgðarlausa starfsmenn sem valda yfirmanninum Jóhanni Haukssyni hugarangri og vandræðum. Sævar Sigurgeirsson leikstýrði „´Ég elska þessa þögn“ sem einnig var eftir Fríðu B. Andersen. Skemmtilegur og stundum bráðfyndinn þáttur en hefði mátt við aðeins meiri slípun (les æfingu). Hávær rokktónlist lék nokkuð stórt hlutverk og krafðist þess að leikur væri samstilltari en hann reyndist vera á köflum. Stórt spurningamerki set ég líka við þá ákvörðun að hafa aðalleikmuninn ósýnilegan þegar ansi mikið var lagt í „natúralíska“ leikmynd að öðru leyti. Fyndinn þáttur og sá sem ég skemmti mér best yfir af þeim sem í boði voru. Ágætur leikur hjá þremenningunum og leikstjórinn sýndi að hann á fullt erindi í það hlutverk.

„Sambekkingar“ eftir Þórunni Guðmundsdóttur voru næstir á svið. Sigurður H. Pálsson, Þorbjörg Björnsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir voru þar í hlutverki frekar einkennilegs fólks sem hittist á förnum vegi. Þórunn hefur þegar sýnt hæfileika sína sem leikskáld og þó hún geri það einnig hér fer hún að vissu leyti fram úr sjálfri sér. Það má segja að galli þessa þáttar hafi verið að í honum var of mikið af góðum hugmyndum. Hægt hefði verið að gera úr honum tvo til þrjá, styttri (og betri) þætti. Einhvernveginn var fókusinn ekki nógu skýr og yfirleitt þegar framvindan hafði náð að grípa mann var skyndilega tekin skörp beygja í aðra átt. Það sem hélt áhorfendum við efnið var skemmtilegur texti og oft og tíðum sprenghlægilegur. Leikarar stóðu sig með prýði og en sérstaklega tókst Þorbjörgu vel upp. Persóna hennar var „venjulegri“ en hinar og varð fyrir vikið sterkari í þessum frekar fáranlegu kringumstæðum. Leikstjórn var í höndum Þorgeirs Tryggvasonar og fórst honum vel úr hendi. Lok þáttarins voru frábær og skildu mann eftir skælbrosandi. Þorgeir hefur þegar sannað leikstjórahæfileika sína og það er undirrituðum hreint óskiljanlegt að áhugafélögin hafi ekki leitað meira eftir kröftum hans í þeim efnum.

Síðasti þáttur fyrir hlé var „Þú segir ekki“ eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Fríðu B. Andersen. Hrafnhildur Brynjólfsdóttir og Þórunn Harðardóttir léku í bráðsmellnum þætti um málfar og málvöndun. Þátturinn byggir nánast algerlega á því að textanum sé komið til skila hratt og örugglega og tókst það ágætlega þó örlítils óöryggis gætti á stundum. Áhorfendur skemmtu sér vel yfir málvillum og umvöndunum og leikarar hefðu að ósekju mátt gefa þeim betra færi á að láta það í ljós.

Þátturinn „Í húsinu“ eftir Sigrúnu Óskarsdóttur var sýndur eftir hlé. Var þar um að ræða lengsta þáttinn á dagskránni. Sesselja Traustadóttir leikstýrði Helgu Sveinsdóttur, Jónínu Björgvinsdóttur, Gísla Birni Heimissyni, Sigurði H. Pálssyni og Fríðu B. Andersen. Það er skemmst frá því að segja að þessi þáttur náði ekki að hrífa undirritaðan. Í raun er um að ræða eintöl persónanna sem höfundur fléttar saman, minningabrot og pælingar fólks sem býr í sama húsi og á sér langa sögu. Þátturinn er ekki mjög leikstjóravænn og hér tókst ekki að búa til þá „leikrænu“ sem þurfti til að halda athyglinni. Það er einfaldlega lítt áhugavert að horfa á leikara standa á sviðinu og „fara með texta“. Hér hefði mátt bregða skurðarhnífnum á textann og sleppa aðeins fram af sér beislinu í uppsetningunni. Ljósasti punkturinn var glimrandi góð frammistaða Gísla Björns Heimssonar í hlutverki Péturs.

Sumum kann að þykja undirritaður í neikvæðara lagi í umfjöllun sinni. Að einhverju leyti skrifast það á reikning þess að eftir tilraunastarfsemina í kringum „Sjö sortir“ í fyrra hafi væntingarnar aðeins bólgnað út. Það er von mín og trú að Hugleikarar láti orð mín ekki draga úr sér kjark heldur haldi ótrauð áfram á sömu braut. Hæfileikarnir hafa aldrei verið af skornum skammti á þeim bæ og kröfur aðdáenda í samræmi við það. Ég bíð spenntur eftir þessu mánaðarlega í nóvember.

Hörður Sigurðarson