Þorgeir Tryggvason skrifar:
Í ár dugar ekkert minna en tvíhöfði til að verðlauna það sem vel var gert í áhugaleikhúsinu á Íslandi. Við Hrund Ólafsdóttir skiptum verkum bróður- og systurlega þannig að til að fá heildarmynd af afrekum vetrarins ákváðum við að veita hvort sinn Tréhaus. Ég undanskil mitt eigið félag, Hugleik. Helstu verðlaunaflokkar eru samskonar en að öðru leyti hafði hvort um sig frjálsar hendur.
Sýning ársins
Þú veist hvernig þetta er
Stúdentaleikhúsið
Fyrir utan það að vera frábær skemmtun og vel unnin á öllum póstum leiklistarlega séð þá er þessi sýning stórtíðindi í leikhúslífinu fyrir að vera það sem hún er: fyndin og flugbeitt pólitísk revía sem virkar – nokkuð sem maður átti ekki von á að nokkuð íslenskt leikhús væri fært um að skapa.
Aðrar góðar: Sambýlingar Leikfélags Húsavíkur og Allra kvikinda líki hjá Leikfélagi Kópavogs.
Leikstjóri ársins
Jón Páll Eyjólfsson
Þú veist hvernig þetta er – Stúdentaleikhúsið
Davíð Oddsson, Súperstar – Leikklúbburinn Saga
Jón Páll er maður ársins í íslensku leikhúsi – áhuga jafnt sem atvinnu – fyrir þessar tímamótasýningar. Nú er bara að sjá hvað hann gerir næst.
Þar fyrir utan á Oddur Bjarni Þorkelsson hrós skilið fyrir vinnu sína með Sambýlinga og Þorleifur Arnarson fyrir að koma stórvirkinu Rígnum á fjalirnar hjá VMA og LMA.
Nýtt handrit ársins
Álagabærinn
Ármann Guðmundsson fyrir Leikfélag Reyðarfjarðar
Skemmtilega unnið með eldfimt efni, fullt af fínum hugmyndum og sérstaklega gaman að þeim metnaði leikfélagsins að ráðast í verkefni af þessu tagi.
Að vanda verður þessi liður hálf snautlegur þegar Hugleikur er skilinn útundan, en þó verður að geta bráðgóðrar frumraunar Hrafnkels Stefánssonar og Nóa Kristinssonar fyrir leikfélag Borgarholtsskóla, Bannað að sofa hjá Maríu Mey. Þeir ynnu líka í flokknum “besta leikritanafnið” ef hann væri í boði.
Leikari í aðalhlutverki
Kristján Halldórsson
Jack í Sambýlingum hjá Leikfélagi Húsavíkur.
Það er skítt að þurfa að gera upp á milli aðalleikara Sambýlinganna en að lokum ákvað ég að senda tréhausinn á Kristján, sem sýndi frábæran hófstilltan leik meðan félagar hans glönsuðu í sínum þakklátu stjörnurullum. Alveg óaðfinnanlega gert.
Ekki það að Sigurður Illugason, Þorkell Björnsson og Gunnar Jóhannesson hafi ekki verið æðislegir líka í Sambýlingum. Og svo má ekki gleyma sjarmatröllinu Tryggva Gunnarssyni sem Tevye mjólkurpóstur í Stykkishólmi. Hvað þá Sigursteini Sigurbergssyni í Allra kvikinda líki.
Leikkona í aðalhlutverki
Margrét Ásgeirsdóttir
Golda í Fiðlaranum á þakinu hjá Leikfélaginu Grímni.
Margrét gerði Goldu firnagóð skil, hörð í horn að taka en hlý undir skrápnum sem er ómissandi í lífsbaráttu af þessu tagi. Glæsilegt.
Fleiri góðar: Fanney Ólafsdóttir sem Ólöf í Stútungasögu hjá ungmennafélögunum í Flóanum, Íris Árný Magnúsdóttir og Erla Dan Jónsdóttir í Náttúran kallar hjá Leikfélagi Selfoss og María Gunnarsdóttir og Guðrún Halla Jónsdóttir í Taktu lagið Lóa í Freyvangi.
Leikari í aukahlutverki
Bjarni Töframaður
Leikfélagi Kópavogs – Allra kvikinda líki
Magnaður performer með flotta kómíska tækni og nærveru á við heilan karlakór. Mikill hvalreki fyrir Leikfélag Kópavogs.
Og svo hinir: Guðmundur Ingi Halldórsson sem Þorvaldur í Rígnum hjá MA/VMA, Eyjólfur Gíslason sem Ronní í Welcome to the Jungle hjá Versló, Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson sem Norexkóngur í Stútungasögu hjá Sýnum og í Flóanum og síðast en hreint ekki síst Gunnar Gunnarsson sem Firs í Kirsuberjagarðinum hjá Halaleikhópnum.
Leikkona í aukahlutverki
Guðný Þorgeirsdóttir
Sheila í Sambýlingum Leikfélags Húsavíkur
Ástarsaga ársins á sviðinu var að sjálfsögðu samdráttur hinnar síbernsku Sheilu og fitubollunnar Normans. Enn ein nostursamleg og hlý mannlýsing í þessari yndislegu sýningu.
Stútungasaga er kjörlendi fyrir leikkonur í aukahlutverkum. Huld Óskarsdóttir og Laufey Einarsdóttir voru til að mynda frábærar Jódísir hvor í sinni uppfærslu. Vigdís Másdóttir og Þorbjörg Dýrfjörð áttu líka eftirminnilegar senur í Þú veist hvernig þetta er.
Umgjörð ársins
Þú veist hvernig þetta er
Stúdentaleikhúsið
Rýmið, lýsingin, lúkkið og síðast en ekki síst föðurlöndin áttu stóran þátt í áhrifunum. Frumlegt, einfalt og í hárréttu samhengi við viðfangsefnið.
Þrjár raunsæislegar leikmyndir vöktu hrifningu mína fyrir vandaða vinnu, Eftirlitsmaðurinn hjá Leikfélagi Keflavíkur, Sambýlingar á Húsavík og Blessað Barnalán hjá Leiklistarfélagi Seltjarnarness. Svo fær Leikfélag Selfoss sérstakt hrós fyrir tjaldborgina í Náttúran kallar.
Hljóðmynd ársins
Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir
Allra kvikinda líki hjá Leikfélagi Kópavogs.
Óborganlegir textar og hressileg lög þeirra Innvortisbræðra áttu sinn þátt í að gera sýninguna að hláturbombu ársins. Söngurinn skólabarnanna um að þau séu of ung fyrir kynfræðslu ætti að fara umsvifalaust á söngskrá allra leikskóla landsins. Eða ekki.
Að öðru leyti voru Stúdentaleikhúsmenn góðir í mússík, svo og íbúar Álagabæjarins. Þá var kórsöngur menntskælinga í Rígnum hreinræktuð snilld.
Sérstök úthaldsverðlaun
Leikfélag Hafnarfjarðar
Hið fornfræga félag vígði nýja húsnæðið sitt með einhverri fífldjörfustu vetrardagskrá sem um getur. Fimm erlend verk, flest nýklassísk, öll frekar hörð undir tönn, og margir leikstjóranna á eða við byrjunarreit í þeirri íþrótt. Ekki sá ég þær allar en margt virðist hafa lukkast stórvel fyrir utan hvað þetta mun skila félaginu miklu í reynslubankann.
Það sem ég sá:
Að sjá til þín maður – Leikfélag Hafnarfjarðar
Álagabærinn – Leikfélag Reyðarfjarðar
Allra kvikinda líki – Leikfélag Kópavogs
Bannað að sofa hjá Maríu mey – Agon, leikfélag Borgarholtsskóla
Blessað barnalán – Leiklistarfélag Seltjarnarness
Davíð Oddsson, Súperstar – Leikklúbburinn Saga
Dýrin í Hálsaskógi – Leikfélag Vestmannaeyja
Eftirlitsmaðurinn – Leikfélag Keflavíkur
Fiðlarinn á þakinu – Leikfélagið Grímnir
Frænka Charleys – Leikfélag Hólmavíkur
Hamskiptin – Leikfélag Hafnarfjarðar
Kirsuberjagarðurinn – Halaleikhópurinn
Kominn til að sjá og sigra – Thalía, leikfélag Menntaskólans við Sund
Makalaus sambúð – Leikfélag Vestmannaeyja
Margt smátt – stuttverkahátíð
Náttúran kallar – Leikfélag Selfoss
Rígurinn – LMA og VMA
Sambýlingar – Leikfélag Húsavíkur
Stræti – Pýramus og Þispa
Stútungasaga – Leikfélagið Sýnir
Stútungasaga – Ungmennafélögin Baldur, Samhygð og Vaka
Taktu lagið Lóa – Freyvangsleikhúsið
Þú veist hvernig þetta er – Stúdentaleikhúsið
Welcome to the Jungle – Nemendamót Verzlunarskóla Íslands