Hinir fráneygu og sívinsælu gagnrýnendur Morgunblaðsins Hrund Ólafsdóttir og Þorgeir Tryggvason hafa nú loksins gert upp leikárið hjá áhugaleikélögunum og útdeilt hinum eftirsótta Tréhaus. Það skal tekið fram að þótt þau hafi víða farið og margt séð, þá sáu þau ekki allar sýningar áhugaleikfélaganna vegna breyttrar ritstjórnarstefnu Moggans. Til að halda fólki spenntu þá birtum við niðurstöðurnar í tvennu lagi, Toggi ríður á vaðið en Hrund bíður til morguns. Hinir fráneygu og sívinsælu gagnrýnendur Morgunblaðsins Hrund Ólafsdóttir og Þorgeir Tryggvason hafa nú loksins gert upp leikárið hjá áhugaleikélögunum og útdeilt hinum eftirsótta Tréhaus. Það skal tekið fram að þótt þau hafi víða farið og margt séð, þá sáu þau ekki allar sýningar áhugaleikfélaganna vegna breyttrar ritstjórnarstefnu Moggans. Til að halda fólki spenntu þá birtum við niðurstöðurnar í tvennu lagi, Toggi ríður á vaðið en Hrund bíður til morguns.
Tréhausinn, leikárið 2005-2006
Af ýmsum ástæðum sá ég óvenju fáar áhugaleiksýningar í ár. Engu að síður vil ég halda uppi merkjum þess sem vel er gert og veita Tréhaus þeim sem hann verðskulda að mínu mati. Að vanda eru sýningar Hugleiks undanskyldar í mínu vali.
Sýning ársins
Íslenski fjölskyldusirkusinn
Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Ein merkilegasta sýning leikársins burtséð frá öllum skilgreiningum á atvinnu- og áhugamönnum. Nærgöngul, efnisrík, frumleg og kraftmikil athugun á gangverkinu í samskiptum fólks. Augljósir sirkushnökrarnir gerðu ekkert annað en að varpa skýrara ljósi á jafn augljósa leikhúskostina. Lífrænt leikhús með erindi.
Tvær aðrar í sérflokki: A.L.F – Andspyrnuhreyfing ljóta fólksins hjá Leikfélagi Kópavogs var fantavel unnin sýning og morðskemmtileg. Það sama má segja um Tvo tvöfalda hjá Leikfélagi Húsavíkur sem er liprasta og best heppnaða farsauppfærsla sem ég hef séð hjá áhugaleikfélagi.
Leikstjóri ársins
Sigrún Sól Ólafsdóttir
Íslenski fjölskyldusirkusinn
Umfang og ögun stjórnleysisins í fjölskyldusirkusnum dyggði Sól til sigurs hér, en dýptin sem hún framkallaði í sálfræðilegu raunsæi innan í snjöllum stílfærðum rammanum sem sirkusinn bjó til tekur af öll tvímæli. Beint í mark.
Að auki verður að nefna Odd Bjarna Þorkelsson fyrir að stýra hinni gríðarflóknu A.L.F í mark og Maríu Sigurðardóttur fyrir að treysta efniviðnum svona vel í Tveimur tvöföldum. Þá þótti mér Laufey Brá Jónsdóttir ná býsna langt með Nunnulífið í Vestmannaeyjum.
Nýtt handrit ársins
Hin endanlega hamingja
eftir Lárus Vilhjálmsson
Leikfélag Hafnarfjarðar
Lipurt og sniðugt leikrit frá Lárusi sem sýndi vald hans á leikritunarforminu og var grunnur að ansi hreint snyrtilegri sýningu hjá þeim göbblurum.
Önnur góð voru A.L.F þar sem hver yndislegi sketsinn rak annan þó heildarmyndin væri kannski dálítið skökk, og svo að sjálfsögðu Fjölskyldusirkusinn.
Karlleikari í aðalhlutverki
Hjálmar Bogi Hafliðason
Tveir Tvöfaldir, Leikfélag Húsavíkur
Mynd Hjálmars Boga af sakleysingja í vökumartröð farsans er toppurinn í ár. Frábær frammistaða, ekki hvað síst vegna þess að hún var látlaus og einlæg þrátt fyrir formið og tæknikröfur þess.
Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson líka átti stjörnuleik sem hinn klaufski dr. Kelimann í A.L.F, og Þröstur Ólafsson verður alltaf hinn eini rétti Matthías fyrir mér, tröll með barnshjarta á réttum stað, í Ronju ræningjadóttur hjá Hallvarði Súganda. Þá vafðist kómíkin í sr. Benedikt ekki fyrir Agli Jónassyni í Blessuðu Barnaláni hjá Umf. Biskupstungna.
Leikkona í aðalhlutverki
Hera Hilmarsdóttir
Íslenski fjölskyldusirkusinn, Leikfélag MH
Hera skapaði tvær gerólíkar persónur í sýningunni, og beitti algerlega andstæðum aðferðum við túlkun þeirra. Misnotaða stúlkan hennar var nánast óbærilega innlifuð, svo mikið var tilfinningalegt örlæti leikkonunnar í hlutverkinu. Logi ljósamaður var hinsvegar dásamleg skopmynd af einfeldningi með skýrum og einföldum dráttum. Og snart mann ekki síður. Atriðið með Loga og sirkusstjóranum er eitt fallegasta og eftirminnilegasta augnablik leikársins. Leggið nafn þessarar leikkonu á minnið.
Aðrar fínar: Hrefna Clausen í titilhlutverkinu í Geirþrúður svarar fyrir sig hjá Leikfélagi Selfoss á Margt Smátt og Sigríður Eir Zophoníasdóttir sem sirkusstjórinn í Fjölskyldusirkusnum.
Karlleikari í aukahlutverki
Sigsteinn Sigurbergsson
A.L.F, Leikfélag Kópavogs
Skeini líkvinnslustjóri var yndisleg týpa hjá Sigsteini, hæfilega ógeðslegur og afar skýrt mótaður, Týpugerðin var reyndar aðal sýningarinnar í heild og Steina er velkomið að gefa félögum sínum af hausnum.
Hilmar Valur Gunnarsson var líka ákaflega sannfærandi sem fótbrotni kokkállinn í Tveim tvöföldum
Leikkona í aukahlutverki
Nunnuskarinn í Nunnulífi
Leikfélag Vestmannaeyja og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum.
Frábær samleikur og yndisleg nærvera einkenndi þennan brúðarskara Jesúss og deila þær vafalaust tréhausum af systurlegri og kristilegri eindrægni.
Aftur er það fatlafól sem fær tilnefningu: Bína á löppinni var alveg geypihlægileg hjá Guðnýju Rósu Magnúsdóttur í Blessuðu Barnaláni. Að ógleymdri Hrefnu Clausen í niðursetningshlutverki í Þuríði og Kambsráninu hjá Leikfélagi Selfoss.
Umgjörð ársins
Finnbogi Erlendsson, Margrét Sverrisdóttir, Oddur Bjarni Þorkelsson og leikhópurinn
A.L.F., Leikfélag Kópavogs
Frábærlega hugmyndarík leikmynd og óaðfinnanlega subbulegt lúkk á öllum hlutum. Sérstakt hrós fyrir leikmunavinnu.
Fimm aðrar góðar leikmyndir: Tveir Tvöfaldir og Blessað barnalán voru vel útfærðar raunsæjar, Hin endanlega hamingja stílhrein og alltumlykjandi og rýmisnýtingin og andrúmsloftið í hráslaganum í Héðinshúsinu var meistaralega nýtt í Fjölskyldusirkusnum. Þá var mikil stemming og snjallar lausnir í Þuríði og Kambsráninu.
Hljóðmynd/tónlist ársins
Helgi Rafn Ingvarsson
Íslenski fjölskyldusirkusinn, Leikfélag MH
Mjög yfirgripsmikil stemmingsmússík og flottur kórsöngur áttu stóran þátt í áhrifamætti þessarar mögnuðu sýningar. Þroskað verk hjá ungum manni – besta frammistaða Idolstjörnu hingað til.
Og svo verður að nefna hið hnökralausa nemendaband sem sá um lifandi undirleik í Jesus Christ Superstar hjá LMA og VMA á Akureyri, og Eyþór Inga Gunnlaugsson sem lék sér að þungarokksstílnum í titilhlutverkinu.
Sýningar sem ég sá:
A.L.F – Andspyrnuhreyfing ljóta fólksins – Leikfélag Kópavogs
Blessað barnalán – Leikdeild Umf. Biskupstungna
Dans – Leikfélag Kópavogs
Hárið – Menntaskólinn á Egilsstöðum
Hin endanlega hamingja – Leikfélag Hafnarfjarðar
Íslenski Fjölskyldusirkusinn – Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Jesus Christ Supersta – Leikfélag Menntaskólans á Akureyri og Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri
Margt smátt – Ýmis leikfélög
Nunnulíf – Leikfélag Vestmannaeyja og framhaldsskóli Vestmannaeyja
Ronja ræningjadóttir – Leikfélagið Hallvarður Súgandi
Rósinkrans og Gullinstjarna eru dauðir – Stúdentaleikhúsið
Sister Act – Leikfélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ
Sódóma – Thalía, leikfélag Menntaskólans við Sund
Það grær áður en þú giftir þig – Leikfélag Kópavogs
Þrek og tár – Leikfélag Hveragerðis
Trainspotting – Leikfélag Keflavíkur
Tveir tvöfaldir – Leikfélag Húsavíkur
Þuríður og Kambsránið – Leikfélag Selfoss