Stúdentaleikhúsið frumsýndi um miðjan mars leikritið “Tilbrigði við sjófugl”, en lagðist í dvala um tíma vegna þess að bæta þurfti úr brunavarnarmálum í annars skemmtilegu húsnæði Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar við Hólmaslóð. Stúdentaleikhúsið fór á flug um miðbik vetrar með samfélagsádeilunni “Þú veist hvernig þetta er” og flýgur nú um hugmyndaheim Tsjekhovs.
Unnið er með efnivið og persónur úr verkum Antons Tsjekhovs. Fjallað er um ástríður manna, vonir þeirra og þrár. Hvað eru lífsgæði, hvað er það í lífinu sem hefur raunverulegt gildi? Hvernig á maður að verja ævinni eða hvernig hefði maður átt að verja ævinni? Konstantín þráir ást og virðingu móður sinnar sem elskar ekkert annað en frægðina og hið veraldlega. Hann þráir viðurkenningu fyrir listsköpun sína og er ástfangin af Nínu, en Nína elskar Alex. Massja elskar aftur á móti Konstantín en kennarinn Símon elskar Mössju. Eftir stendur óendurgoldin ást og ófullnægðir einstaklingar. Hugmyndin að baki verkinu á því fullt erindi við samtímann.
Textinn er þjáll og auðmeltur en úrvinnslunni á annars ágætum efnivið er ábótavant. Senurnar eru tilbreytingalitlar og virka einhæfar þegar á líður.
Inn á milli er flutt tónlist sem styður söguna. Lögin eru úr ýmsum áttum, öll þekkt og vísar ýmist texti eða laglína til aðstæðna hverju sinni.
Helsti styrkur sýningarinnar er án efa leikhópurinn sjálfur. Leikararnir eru öruggir í túlkun og hreyfingum og textameðferð er í flestum tilvikum mjög góð svo sagan kemst vel til skila. Þó bar í einstöku tilvikum á kækjum sem engan vegin áttu við viðkomandi persónu. Leikmynd og búningar þjóna sýningunni vel.
Leikstjórar sýningarinnar, Edda Björg Eyjólfsdóttir og Marta Nordal hafa unnið gott starf með hópnum, því gott jafnvægi myndast milli leikara þó nokkuð vanti á svo sagan sjálf verði heilsteypt.
Þórunn Gréta Sigurðardóttir