Margmiðlunar-, söng- og leiksýningin The Big Cry verður sýnd í Kassanum miðvikudaginn 12. apríl nk. kl. 21:00. Verkið, sem er gestasýning í Þjóðleikhúsinu, verður einungis sýnt þrisvar sinnum. Höfundur og flytjandi er Margrét Sigurðardóttir.
Er það ekki stundum dásamlega ógnvænlegt að tipla alveg út á brún þar sem allt getur gerst. Að finna hjartað slá svo fast að það hristir líkamann og sálina.Og stundum, að láta sig detta og treysta því að vindurinn grípi mann. Sem hann gerir alltaf, á einhvern undarlegan hátt.
The Big Cry var óformlega frumsýnd í London 2004. Í apríl sl. var hún sýnd í Hafnarhúsinu en að þessu sinni verða þrjár sýningar í Kassanum í Þjóðleikhúsinu, 12., 19. og 20. apríl. The Big Cry hefur hlotið mjög góðar viðtökur áhorfenda. Um er að ræða blöndu af kvikmyndabrotum, sem er varpað á tvo skjái, og lifandi jazztónlist. Skyggnst er inn í líf nokkurra persóna sem reyna að fóta sig í óstöðugri tilveru með ýmist dramatískum eða skondnum afleiðingum. Við sögu koma m.a. storkar, hátíska og bökunardrottning. Höfundur og flytjandi er sem fyrr segir Margrét Sigurðardóttir.
Margrét útskrifaðist með láði frá Royal Academy of Music í júlí 2004 þar sem hún hlaut viðurkenningar fyrir námsárangur; Foundation Awards og DipRam Awards. Margrét stundaði klassískt söngnám í Royal Academy en hefur þó ekki einskorðað sig við þá tegund tónlistar. Meðal verkefna hennar eru Barbarina í Brúðkaupi Figarós í óperuhúsinu í Cork á Írlandi, en sú uppfærsla hlaut tvær tilnefningar til Írsku leikhússverðlaunanna, upptökur fyrir Canal+ í París og BBC í London með Björk og Schola Cantorum, þáttaka í Hrafnagaldri með Sigur Rós og fleirum og nú síðast The Big Cry. Auk þess að vera höfundur handrits og leika aðalhlutverkið, flytur Margrét jasstónlistina í verkinu ásamt Gunnari Hrafnssyni kontrabassaleikara.
Leikstjóri er Wenche Torrisen, kvikmyndagerð er í höndum Tiziana Panizza en tónlist við kvikmyndina gerir Ian Stewart.
Sýningarnar hefjast kl. 21:00. Miðasala er á www.leikhusid.is og í miðasölu Þjóðleikhússins í síma 551 1200.