Hugleikur sýnir sjö einleiki fyrir konur sunnudaginn 1. nóvember og mánudaginn 2. nóvember kl. 20 bæði kvöld undir yfirskriftinni Þetta er ekki einleikið. Um er að ræða afrakstur af einleikjanámskeiði sem Agnar Jón Egilsson hefur stýrt á síðustu vikum. Sýnt er í húsnæði leikfélagsins að Eyjarslóð 9. Tekið er á móti frjálsum framlögum við innganginn auk þess sem kaffi og meðlæti er selt í hléi í fjáröflunarskyni.

Einleikirnir sem sýndir verða eru Snakk eftir Júlíu Hannam, Happasteinn eftir Ástu Gísladóttur, Snyrting eftir Nínu Björk Jónsdóttur, Þarna úti eftir Hrefnu Friðriksdóttur, Á hjólum eftir V. Kára Heiðdal, Hvað er bak við ystu sjónarrönd… eftir Svanlaugu Jóhannsdóttur og Án titils eftir Rosu Liksom. 

Leikarar einleikjanna eru Ásdís Ármannsdóttir, Ásta Gísladóttur, Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir, Elísabeth Lind Ingólfsdóttir, Hulda B. Hákonardóttir, Júlía Hannam og Svanlaug Jóhannsdóttir.

Ýmsum spurningum er velt upp í einleikjunum eins og hvort betra sé að vera þar eða hér. Einmanaleikinn svífur oftast yfir vötnum í einleikjunum. Hvernig tekst fólk á við höfnun og eftirsjá? Fá fortíðardraugar að móta lífið eða slær maður þessu bara upp í kæruleysi og fær sér snakk?

Hvernig líður þeim sem hefur sett allt sem hann á á einn bát og lagt af stað í leit að betra lífi? Manni sem sér ekki lengur landið sem hann hefur lagt að baki og veit ekki hvernig landið sem hann er að leita að lítur út? Hvað er kona á besta aldri að gera á ströndinni, hefur hún týnt einhverju eða vonast hún til að finna eitthvað?

Við heyrum örlagasögu finnskrar skúringakonu í örstuttu máli. Sjáum hversu mjög sambandsslit taka á og hve erfitt er að koma auga á það sem fór úrskeiðis. Því fátt reynir á eins og hjóla yfir Kambana.

{mos_fb_discuss:2}