Tenórinn var frumsýndur í Iðnó fyrir tíu árum síðan og sýndur þar og víða annarsstaðar við feikilega góðar undirtektir bæði gagnrýnenda og áhorfenda. Til að halda upp á tíu ára afmælið kemur sýningin nú aftur á fjalir hins gamla og sögufræga samkomuhúss, Iðnó. Höfundur Tenórsins er Guðmundur Ólafsson og túlkar hann jafnframt titilhlutverkið en undirleikara hans leikur Sigursveinn Kr. Magnússon. Leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson.

Tenórsöngvari sem hefur verið langdvölum í útlöndum er að fara að halda tónleika. Leikritið gerist á einum og hálfum klukkutíma í búningsherbergi ónefnds tónlistarhúss þar sem söngvarinn og undirleikari hans eru að undirbúa sig fyrir tónleikana. Upphitun þeirra og undirbúningur tekur á sig undarlegustu króka bæði til fortíðar og framtíðar og kemur ýmislegt í ljós þegar skyggnst er ofaní sálarkirnu söngvarans ekki síður en í ferðatösku hans.

Í tónlist er víða leitað fanga svo sem hjá rússneskum karlakór, háværum sópransöngkonum og rasssíðum röppurum. Auk þess í hjarnbjörtum íslenskum tenórsöngvum, amerískum söngleikjum, ítölskum slögurum og óperuaríum.

Sýningardagar:
Föstudagur 4. október
Fimmtudagur 10. október
Sunnudagur 13. október.
Laugardagur 19. október.

Sýningar hefjast klukkan 20.00. Miðaverð er 4.000 krónur en hægt er að fá hópafslátt.