„Góð leiksýning gleymist ekki svo glatt….“ Þorgeir Tryggvason rifjar upp sín eftirminnilegustu kvöld í leikhúsinu og setur upp topp tíu lista.

Góð leiksýning gleymist ekki svo glatt. Reyndar geymast verulega vondar sýningar jafn lengi í minninu, illu heilli. En allavega, í tilefni af þessum gagnrýnendavef ákvað ég að líta um öxl og rifja upp tíu sýningar sem lifa í minninu af fyrrnefndu ástæðunni. Tíu eftirminnilegustu kvöld mín  í íslensku áhugaleikhúsi (í stafrófsröð sýninga):

BLÓÐ HINNAR SVELTANDI STÉTTAR
Höfundur: Sam Shepard
Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Leikfélag Hafnarfjarðar 1991-92
MÖGNUÐ uppfærsla á krefjandi verki. Firnasterkur leikhópur og drjúgur hluti hans að stíga sín fyrstu skref á leiksviði, sem erfitt var að trúa að gæti verið. Sýning sem staðfesti þann grun minn að oss amatörum er ekkert ómögulegt.

DÝRIN Í HÁLSASKÓGI
Höfundur: Torbjörn Egner
Leikstjóri: Stefán Jónsson
Leikfélag Flensborgarskóla 1999-?2000
ÓTRÚLEGA snjöll endurtúlkun á verki sem allir kunna utanað og er því kjörinn vettvangur fyrir tilraunir. Leikið í töffaralegum “Pulp Fiction” stíl og skógurinn orðinn borgarfrumskógur nútímans. Mikki refur hefur aldrei þessu vant alla samúð áhorfenda, lúserinn sem semur sig ekki að háttum fjöldans og hlýtur því að farast. Snilldarlegur umsnúningur án þess að nokkru væri breytt af texta.

GRÆNJAXLAR
Höfundur: Pétur Gunnarsson
Leikstjóri: Arnheiður Ingimundardóttir
Leikklúbburinn Saga 1987?88
AF þeim ófáu leiksýningum sem ég hef séð um æfina hefur þessi komist næst því að springa af leikgleði. Ævintýraleg þroskasaga fjögurra krakka úr pollagalla í fullorðinsföt með viðkomu í fermingarbúningum. Brjálaður hraði og frábær leikur á öllum póstum að viðbættum pottþéttum tónlistarflutningi. “Við skýin felum ekki sólina ….”

MEÐ KVEÐJU FRÁ YALTA (Um skaðsemi Tóbaksins, Bónorðið og Björninn)
Höfundur: Anton Tsjékof
Leikstjóri: Leikhópurinn
Leikfélag Kópavogs 1997-98
ÞRÍR einþáttungar um hjónabönd, hvernig til þeirra er stofnað og hve afdrif fórnarlamba þeirra verða (stundum). Hér er dr. Tsjékov eins og hann gerist fyndnastur og úrvalslið Kópavogsmanna fór á þvílíkum kostum. Ekki dregur úr hrifningunni að hópurinn naut ekki annarra leikstjóraaugna en sinna eigin. Listfengasta áhugaleikfélag landsins í toppformi.

MYSINGSAMLOKA MEÐ SVEPPUM
Höfundur og leikstjóri: Jón St. Kristjánsson
Leikfélag Hafnarfjarðar 1992-93
SÝNING unglinganna úr Firðinum á þingi Bandalags Íslenskra leikfélaga í Vestmannaeyjum 1993 var tvímælalaust hápunkturinn á þeirri samkomu.
Ótrúlega innlifuð sýning, enda unnin upp úr spunavinnu hópsins og steypt í öruggt form af höfundi, nokkuð sem vantar oft upp á unglingasýningar sem unnar eru á þennan hátt. Afraksturinn var frábær raunsæ mynd af venjulegu fólki, leikin af sjaldgæfu örlæti og heiðarleika.

SALKA VALKA
Höfundur: Halldór Laxness, leikgerð Stefáns Baldurssonar og Þorsteins Gunnarssonar
Leikstjóri: María Kristjánsdóttir
Leikfélag Húsavíkur 1983-84
EF ég lenti í þeirri hræðilegu aðstöðu að þurfa að stytta þennan lista um níu sýningar er ég ekki frá því að þessi stæði eftir. Mér finnst ég muna hana nánast frá augnabliki til augnabliks og í minningunni hefur hún yfirbragð fullkomnunar. Allt rétt, allt sterkt, allt gott. As good as it gets, eins og kellingin sagði.

SMÁBORGARABRÚÐKAUP
Höfundur: Bertolt Brecht
Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Leikfélag Selfoss 1996-97
MAGNAÐ maður, magnað. Hér tókst Viðari og snillingum prýddur leikhópur Selfyssinga að búa til sýningu í (næstum) fullri lengd úr einþáttungi Brechts. Löng þögul atriði og ekki mínútu of langt. Að auki var boðið upp á groddalegan forleik, leikhúsferðina, sem var bráðskemmtilegur líka, þó hápunkturinn væri auðvitað listrænir meistarataktar Brechts, Vidda og smáborgaranna.

SÖLUMAÐUR DEYR
Höfundur: Arthur Miller
Leikstjóri: Guðrún Alfreðsdóttir
Leikfélag Húsavíkur 1996-97
Helsta verk Millers og mögulega besta leikrit aldarinnar (allavega öruggt inn á topp fimm í svoleiðis vali). Krefst stjörnuleiks af öllum aðalleikurum og hér vantaði ekkert upp á það. Hin dauðadæmda Loman-fjölskylda lifnaði í allri sinni mikilfenglegu meðalmennsku og deildi hlutdeild sinni í amerísku martröðinni með (alltof fáum) áhorfendum á Húsavík. Ógleymanleg sýning.

SUMARGESTIR
Höfundur: Maxim Gorki
Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Masterclassnámskeið í Svarfaðardal 1999
FYRSTU verðlaun sem óvæntasta topp-tíu-sýningin. Þegar Masterclass-nemarnir buðu okkur hinum á kynningu á því sem þau höfðu verið að gera síðustu sjö dagana eða svo áttu líklega fæstir von á að sjá jafn töfrandi, kraftmikla og umfram allt FULLBURÐA sýningu. Notkun á leikrými utan hins eiginlega sviðs var hreinlega innblásin. Við vitum svosem öll sem reynt höfum að það er eitthvað í loftinu í dalnum góða sem eflir sköpunarþróttinn, en andskotinn…

UPPSPUNI FRÁ RÓTUM
Höfundar: Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikfélag Húsavíkur 1990-2000
ÓKEI, auðvitað er ég hlutdrægur, en mér er bara skítsama. Frumsýningin á Uppspunanum er fyrsta frumsýningin á eigin verki þar sem ég hef setið út í sal fullkomlega sáttur. Ekki skemmir að ég var hreint ekki viss um það að þetta flókna og sérviskulega byggða leikrit virkaði yfir höfuð, en ekki voru liðnar margar mínútur af frumsýningunni þegar ég gat slappað af og tekið til við að skemmta mér. Það virkaði.
Þetta eru sumsé tíu eftirminnilegustu sýningarnar mínar. Nú hvet ég lesendur Leiklistar.is til að skoða eigin hug, leita uppi sínar tíu og senda vefnum línu(r).

Þorgeir T.