Sjálfstæðu leikhúsin (SL), samtök atvinnufólks í sviðslistum á Íslandi, harma þann mikla niðurskurð til sjálfstæðra sviðslistahópa sem boðaður er í fjárlögum 2014. Innan sjálfstæða sviðslistageirans er að finna vaxtarbrodd íslenskra sviðslista, sem felst í nýsköpun, rannsóknum og tækifærum ungs sviðslistafólks til að láta að sér kveða. Menningarlegt gildi starfsins er umtalsvert, þar sem  meirihluti allra uppsetninga sjálfstæðra hópa eru ný íslensk verk sem stuðlar að framþróun sviðslista með nýsköpun og frumleika að leiðarljósi.

Sjálfstæðu leikhúsin – SL eiga veigamikinn þátt í kynningu á íslenskum sviðslistum á erlendum vettvangi og hafa staðið að markvissri uppbyggingu á alþjóðlegu tengslaneti sem og framsæknir sviðslistahópar eins Vesturport og Shallala Ernu Ómarsdóttur.

Á síðustu árum hefur orðið til kröftugur vettvangur skapandi greina, sem hafa skapað störf og aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar, eins og fram kemur í skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina frá 2010. Í skýrslunni, sem unnin var í samvinnu fjögurra ráðuneyta, eru færðar sönnur á mikilvægi skapandi greina fyrir íslenskt atvinnulíf. Það er því með öllu óskiljanlegt að ekki sé haldið áfram að byggja upp og styðja við skapandi greinar þegar ljóst er að Ísland þarf að halda áfram að byggja upp atvinnulíf sem byggir á hugviti og sköpunarkrafti.

Skapandi greinar eru að stórum hluta lykillinn að því að vekja athygli á Íslandi sem áhugaverðum  kosti fyrir ferðamenn. Þær eru grunnur að öflugu menningarlífi, nýsköpun og umbreytingu í atvinnulífi og forsenda fyrir farsælu þjóðfélagi. Stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna – SL –hvetur því ríkisstjórn og þingmenn til að draga til baka niðurskurð upp á 24% til starfsemi atvinnuleikhópa í fjárlagafrumvarpi og gefa þeim tækifæri til að halda áfram að byggja upp fjölbreytt og skapandi Ísland. Þannig aukum við tekjur ríkissjóðs – þannig aukum við lífsgæði!

Fyrir hönd stjórnar SL
Birna Hafstein, formaður