Rúm fjörutíu ár eru síðan leiksýningin Ínúk-maðurinn var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1974. Leikrit samið í hópvinnu til sýninga í skólum um eskimóa og áhrif hins vestræna heims á menningu þeirra.
Leiksýningin sló í gegn bæði heima og heiman og var boðið að sýna á leikhúshátíðum vítt og breitt um heiminn. Næstu fjögur árin var hópurinn: Brynja Benediktsdóttir, sem jafnframt var leikstjóri, Helga E. Jónsdóttir, Ketill Larsen, Kristbjörg Kjeld og Þórhallur Sigurðsson, á faraldsfæti en sýningar á erlendri grundu urðu 109 í 36 borgum og 19 þjóðlöndum; Norðurlöndum, Evrópu og Mið- og Suður Ameríku.
Í tilefni af amælinu hefur verið opnuð sýning í máli og myndum um „ferðir“ Ínúks í anddyri Þjóðleikhússins og er gestum og gangandi boðið að skoða sýninguna um helgina frá kl.14:00 – 17:00.
Mánudaginn 11. maí kl. 20:00 verður haldið málþing í Þjóðleikhúskjallaranum um Grænland og framtíðarhorfur íbúanna þar og sjónum beint sérstaklega að Austur-Grænlandi.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.