Bjarni skrifar bréf til konunnar sem honum bauðst að fylgja til borgarinnar forðum. Gerði hann rétt að taka jörðina fram yfir ástina? Hefði hann fremur átt að flytjast til Reykjavíkur til að moka skurð eða reisa bragga fyrir Ameríkana? Minningar úr sveitinni, vangaveltur um lífið og tilveruna og rammíslenskt fólk fléttast inn í safaríkar frásagnir af því sem hann kallar fengitíð lífs síns. Forboðnar ástir renna saman við sagnir af reyktum líkum, lágfættum hrútum og því þegar Farmallinn kom.
Sýningin var frumsýnd í apríl, hlaut lof gagnrýnenda og komust færri leikhúsgestir að en vildu enda var hún sýnd fyrir fullu húsi flest kvöld vikunnar fram að lokum leikárs.