Hin margrómaða ástarsaga Bergsveins Birgissonar snýr aftur á Nýja svið Borgarleikhússins föstudaginn 7. september næstkomandi. Hér er á ferðinni hrífandi saga um þrá og eftirsjá. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2010 og valin besta skáldsaga ársins að mati bóksala það sama ár. Kristín Eysteinsdóttir leikstýrir verkinu og í Í burðarhlutverkum eru þau Ilmur Kristjánsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson sem hlaut tilnefningu til Grímunnar sem besti leikari fyrir hlutverk sitt nú í vor.

Bjarni skrifar bréf til konunnar sem honum bauðst að fylgja til borgarinnar forðum. Gerði hann rétt að taka jörðina fram yfir ástina? Hefði hann fremur átt að flytjast til Reykjavíkur til að moka skurð eða reisa bragga fyrir Ameríkana? Minningar úr sveitinni, vangaveltur um lífið og tilveruna og rammíslenskt fólk fléttast inn í safaríkar frásagnir af því sem hann kallar fengitíð lífs síns. Forboðnar ástir renna saman við sagnir af reyktum líkum, lágfættum hrútum og því þegar Farmallinn kom.

Sýningin var frumsýnd í apríl, hlaut lof gagnrýnenda og komust færri leikhúsgestir að en vildu enda var hún sýnd fyrir fullu húsi flest kvöld vikunnar fram að lokum leikárs.