Í júní mun Tjarnarbíó bjóða upp á tvær sprellfjörugar íslenskar leiksýningar. Þetta eru Hetja eftir Kára Viðarsson og Víking Kristjánsson, og Ferðasaga Guðríðar þar sem Þórunn Erna Clausen fer á kostum í splunkunýrri leikgerð af hinu rómaða leikriti Brynju Benediktsdóttur Ferðir Guðríðar. Báðar sýningarnar hafa fengið mikið lof gagnrýnenda en þær voru frumsýndar á síðasta ári.
Sýningar verða eftirfarandi:
Sunnudagur 19. júní (á ensku)
Hetja kl. 16
Ferðasaga Guðríðar kl. 20
Föstudagur 24. júní (á íslensku)
Hetja kl. 16
Ferðasaga Guðríðar kl. 20
Laugardagur 25. júní (á íslensku)
Ferðasaga Guðríðar kl. 16
Hetja kl. 20
Sunnudagur 26.júní (á ensku)
Hetja kl. 16
Ferðasaga Guðríðar kl. 20
Hetja
Hetja er gamanleikur byggður á Bárðarsögu Snæfellsáss. Sýningin segir frá sögu og sambandi feðganna Bárðar Snæfellsáss og Gests sonar hans. Sýningin var frumsýnd í Rifi á Snæfellsnesi 9. júlí 2010 og hefur síðan gengið bæði þar og í Landnámssetri Íslands í Borgarnesi. Verkið er einleikur með heldur óhefðbundnu sniði þar sem sýningin leitast eftir því að nýta sér leikhúsformið og alla möguleika þess til þess að komast hjá því að leikari sýningarinnar þurfi nokkru sinni að bregða sér í hlutverk sögumanns. Hetja er þroskasaga um feðga, fyrir feðga og alla þá sem þekkja feðga eða hafa á einhvern hátt tengst feðgum eða átt samskipti við feðga.
Höfundar: Kári Viðarsson og Víkingur Kristjánsson
Leikstjóri: Víkingur Kristjánsson
Leikari: Kári Viðarsson
Hljóðhönnun: Kári Viðarsson og Tómas Víkingsson
Ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson
Ferðasaga Guðríðar
Ferðasaga Guðríðar er einleikur þar sem á stórskemmtilegan hátt er sagt frá ævi og ævintýrum hinnar víðförlu og mögnuðu víkingakonu Guðríðar Þorbjarnardóttur sem sigldi alla leið til Ameríku í kringum árið 1000. Þetta er saga um ástir, hugrekki og baráttu einnar konu til að láta drauma sína rætast í heimi þar sem pestir, stríð og draugagangur voru daglegt brauð. Þórunn Erna Clausen leikur allar persónur verksins, karla og konur allt frá Leifi heppna til Guðríðar sjálfrar. Áhorfendur sitja um borð í víkingaskipinu Íslendingi og mega eiga von á að fara með leikkonunni í einstakt, hjartnæmt og oft á tíðum sprenghlægilegt ferðalag í gegnum Víkingatímann.
Verkið er splunkuný leikgerð af hinu rómaða leikriti Brynju Benediktsdóttur Ferðir Guðríðar. Sýningin hentar fyrir fólk á öllum aldri.
Leikkona: Þórunn Erna Clausen
Leikstjóri: María Ellingsen
Miðaverð: 2.500 kr. Miðasala fer fram á www.tjarnarbio.is og midi.is. Einnig má hafa samband við miðasölu Tjarnarbíó alla virka daga á milli klukkan 13-15 eða senda vefpóst á midasala@tjarnarbio.is
Hægt er að panta ekta íslenska kjötsúpu á undan sýningu fyrir stærri hópa. Hafa verður samband á kristin@tjarnarbio.is með fyrirvara.
{mos_fb_discuss:3}