Halaleikhópurinn vinnur þessa dagana hörðum höndum að uppsetningu á leikverkinu „Sjöundá – Svartfugl Gunnars Gunnarssonar“ sem á að frumsýna föstudaginn 5. febrúar klukkan 20.00. Um er að ræða nýja leikgerð eftir þau Ágústu Skúladóttur leikstjóra og Þorgeir Tryggvason í samvinnu við leikhópinn. Verkið fjallar um eitt þekktasta sakamál Íslandssögunnar, morðin á Sjöundá og réttarhöldin yfir þeim Bjarna Bjarnasyni og Steinunni Sveinsdóttur, en þeim var gefið að sök að hafa lagt á ráðin og banað mökum sínum.

Tónlist og áhrifshljóð í verkinu er samin af þeim Einari Andréssyni og Einari Melax og verður flutt „live“ þar sem spilað verður á Gömbu, Steinaspil, Hammond og borðhörpu.

Þetta er fyrsta uppsetning Ágústu með Halaleikhópnum en leiðir hennar og Þorgeirs, sem þekktur er úr hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum, hafa oft legið saman í leikhúsunum og má þar nefna  GRIMMS hjá Leikfélagi Kópavogs sem valin var athyglisverðasta áhugasýning ársins 2003 og Grímuverðlauna-barnasýningarnar KLAUFAR OG KÓNGSDÆTUR (Þjóðleikhúsið 2005)  og BÓLU HJÁLMAR (Stoppleikhúsið 2009) en í þeim tveimur síðarnefndu var Þorgeir einn höfunda.

Halaleikhópurinn var stofnaður árið 1992 og hefur frá upphafi haft það að markmiði sínu að „iðka leiklist fyrir alla“. Á hverju ári hefur hópurinn sett upp eina stóra sýningu, stundum fleiri og er handbragð hópsins metnaðarfullt. Meðal sýninga sem hópurinn hefur staðið að eru: Kirsuberjagarðurinn eftir Anton P. Tsjekhov, (2005) Gaukshreiðrið eftir Dale Wassermann í leikstjórn Guðjóns Sigvaldarsonar þar sem hópurinn hlaut mikið lof enda var sýningin kosin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2007-2008 á vegum Þjóðleikhússins og fékk hópurinn að stíga á Stóra svið leikhússins að launum með verk sitt fyrir fullu húsi. Auk þess hefur leikhópurinn látið semja fyrir sig ný íslensk verk nokkrum sinnum eins og t.d. Batnandi mann eftir Ármann Guðmundsson 2007.

Allar nánari upplýsingar er að finna á vef félagsins www.halaleikhopurinn.is Sýnt verður í Halanum, Hátúni 12. Hægt verður að nálgast miða á Sjöundá í síma 897-5007 og á midi@halaleikhopurinn.is.

Tengiliðir:

Ágústa Skúladóttir, leikstjóri, agustaskula@gmail.com sími 820-3510
Ása Hildur Guðjónsdóttir, formaður, asahildur@gmail.com sími 692-3630

{mos_fb_discuss:2}