Kæru leiklistarunnendur,

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt þann 10. desember 1948.

Hún var samin í kjölfar hryllings seinni heimstyrjaldarinnar þar sem ríki sameinuðust um grundvallarréttindi hverrar manneskju. Nú þegar liðin eru 75 ár frá þessum merka degi stendur Amnesty International fyrir viðburði til að minnast þessa dags. Allt starf okkar byggir á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og því er heldur betur tilefni til að fagna.

Til að fagna 75 árum frá samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna verður vegleg dagskrá haldin í Borgarleikhúsinu sem hefst klukkan 16:00.

Leiklestrarfélagið og hljómsveitin Mandólín standa fyrir leiklestri með tónlist. Flutt verður verkið Allir þeir við falli er búið, eftir Samuel Beckett í þýðingu Árna Ibsen, sem var skrifað fyrir útvarp og má segja að sé hugvekja um gildi þess að rétta fram hjálparhönd.

Lesarar eru engir aðrir en Brynhildur Guðjónsdóttir, Íris Tanja Flygenring, Jakob Þór Einarsson, Kristján Franklín Magnúss, Sigurður Sigurjónsson, Valdimar Flygenring, Þór Tulinius, Ragnheiður Steindórsdóttir og Örn Gauti Jóhannsson. Leikstjóri er Þórunn Magnea. Hljómsveitin Mandólín tekur þátt í uppsetningunni með tónlist og leikhljóðum.

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, flytur ávarp áður en leiklesturinn hefst. Það er vel við hæfi að fá til liðs við okkur forsetafrú Íslands þar sem Eleanor Roosevelt, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, er sögð hafa verið krafturinn á bak við gerð mannréttindayfirlýsingarinnar. Sjálf hefur Eliza Reid lagt mannréttindum lið þar sem hún hefur nýtt vettvang sinn til að vekja athygli á jafnrétti kynja.

Að leiklestri loknum verður aðventustemning í anddyri Borgarleikhússins. Sá viðburður er opinn öllum og ókeypis. Þar verða notalegheit og ljúfir tónar í flutningi Ellenar Kristjánsdóttur og Systra ásamt léttum veitingum. Við kynnum einnig okkar árlegu herferð, Þitt nafn bjargar lífi.

Gestum gefst kostur á að skrifa undir tíu mál til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Einnig verður í boði að skrifa persónulegar stuðningskveðjur á kort sem er ekki síður mikilvægt til að veita þolendum og fjölskyldum þeirra styrk á erfiðum tímum. Það er því full ástæða til að mæta þó að þú hafir þegar skrifað undir málin í ár.

Miðaverð á leiklesturinn er 2500 krónur. Allur ágóði rennur til mannréttindastarfs Íslandsdeildar Amnesty International. Miðasölu má finna hér. (https://tix.is/is/event/16680/leiklestur/)