Iðnaðarmannaleikhúsið er nýstofnaður leikhópur sem fjallar um stemmninguna meðal iðnaðarmanna og samanstendur hópurinn af leikhúslistamönnum sem allir hafa reynslu af iðnaðarstörfum. Meðlimir Iðnaðarmannaleikhússins eru allir í yngri kantinum, á aldrinum 25 til 34 ára.

Ástverk ehf er nýtt íslenskt verk sem varð til upp úr samvinnu hópsins. Verkið byggir bæði á sönnum sögum af vinnustöðum og spunavinnu. Ástverk ehf er grátbroslegt verk með alvarlegum undirtóni sem skoðar stöðu iðnaðarmanna á Íslandi á breytingatímum, en kemur einnig töluvert inn á ímynd karlmennskunar í nútímaþjóðfélagi.

Ástmar er fljótfær iðnaðarmaður sem vinnur fyrir verktakafyrirtækið HafnarVerk. Til þess að græða meira á vinnu sinni stofnar Ástmar eigið fyrirtæki, Ástverk ehf. og stelur verkefni frá HafnarVerki. Fyrsta verk Ástverks ehf. felst í því að endurinnrétta íbúð í Fossvoginum. Það eina sem vantar er góður maður til að spjalla við í kaffinu. Ef þú ert með góð verk, góða menn og ehf. geturðu ekki klikkað. Grímur, vinur Ástmars, felst á að vinna með Ástmari og hætta hjá HafnarVerki. Ástverk ehf. er saga þessara tveggja manna og sagan af því hvernig þeim tekst ásamt Vidda, frænda Gríms, að vinna verk sem virðist á köflum vera óðs manns æði. Að minnsta kosti svona í miðri kreppunni. Í verkinu eru lygar, svik og vondir brandarar í löngum kaffipásum. Restin reddar sér bara.

Flutt af Bjarna Snæbjörnssyni, Finnboga Þorkatli Jónssyni og Páli Sigþóri Pálssyni. Leikstýrt af Árna Kristjánssyni. Hljóðhönnun unnin af Lydíu Grétarsdóttur.

Frekari upplýsingar veitir: Finnbogi Þorkell Jónsson í síma 867-0927 eða gegnum idnadarmannaleikhusid@gmail.com og Kristján Hans Óskarsson í síma 867-2675 eða gegnum kristjan@oskarsson.co.uk Hópurinn heldur úti síðunni http://idnadarmannaleikhusid.blogspot.com

Miðapantanir í síma 867-0927. Verð 1900 krónur.

Fimmtudagur 5. febrúar Ölver, Álfheimar 74, 104 Reykjavík
Fimmtudagur 12. febrúar Players, Bæjarlind 4, 201 Kópavogur
Fimmtudagur 19. febrúar Péturs Pub, Höfðabakki 1, 110 Reykjavík
Fimmtudagur 26. febrúar Hressingarskálinn, Austurstræti 20, 101 Reykjavík

{mos_fb_discuss:2}