Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og fyrsta sinn. Að þessu sinni sóttu alls sautján leikfélög um að koma til greina við valið með nítján sýningar. Að vanda var úrval sýninganna afar fjölbreytt, leikfélögin sýndu ný frumsamin verk og eldri íslensk verk, nýleg og sígild erlend leikrit, spunasýningar, söngleiki, gamanleikrit og dramatísk verk, og jafnt leikrit fyrir börn sem fullorðna. Allar sýningar voru skoðaðar af upptökum.

Í dómnefnd í ár sátu Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri, Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins og leikararnir Ragnheiður Steindórsdóttir og Snorri Engilbertsson.

Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

1.    Borgarbörn, barna-og unglingaleikhús: Jólanótt Viktoríu eftir Erlu Ruth Harðardóttur leikstjóra. Í sýningum Borgarbarna fá börn og unglingar mikilsverða reynslu í leik, söng og dansi, og sýndu þátttakendur í sýningunni fjölbreytta hæfileika og mikið öryggi.

2.    Freyvangsleikhúsið: Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren. Leikstjóri: Saga Jónsdóttir. Sýning Freyvangsleikhússins á Emil í Kattholti er sérlega falleg, litrík og fjörleg. Leikarar á öllum aldri stóðu sig vel, og verður þó sérstaklega að geta afar góðrar frammistöðu barnanna.

3.    Halaleikhópurinn: Sambýlingar eftir Tom Griffin. Leikstjórar: Oddur Bjarni Þorkelsson og Margrét Sverrisdóttir. Leikhópurinn færði áhorfendum sínum sterkar, áhugaverðar og skemmtilegar mannlýsingar, sem kalla fram bæði bros og ýmsar vangaveltur.

4.    Leikdeild Umf. Eflingar: Í beinni eftir Hörð Þór Benónýsson. Leikstjóri: Jenný Lára Arnórsdóttir. Reykdælingar sýndu nýtt og skemmtilegt leikrit með dramatískum undirtóni, byggt á sniðugri grunnhugmynd, með frumsaminni tónlist eftir Jaan Alavere, þar sem hinn stóri leikhópur félagsins naut sín vel.

5.    Leikdeild Umf. Skallagríms: Stöngin inn eftir Guðmund Ólafsson. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson. Leikdeildin spreytti sig hér á leikritinu sem var valið áhugasýning ársins á liðnu leikári með góðum árangri, og bjó til fyndna og skemmtilega sýningu.

6.    Leikfélag Austur-Eyfellinga: Anna í Stóru-Borg, leikgerð eftir Margréti Tryggvadóttur. Leikstjóri: Sveinn Óskar Ásbjörnsson. Leikhópurinn sýndi metnaðarfulla sýningu á nýju verki, og var gaman að sjá hvernig heimamenn tókust á við þessa frægu ástarsögu úr héraðinu.

7.    Leikfélag Hólmavíkur: Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson. Leikstjóri: Esther Ösp Valdimarsdóttir. Grunnskólinn, tónlistarskólinn, nemendur úr Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og leikfélag Hólmavíkur tóku höndum saman um að skapa litríka og skemmtilega sýningu, þar sem ungir leikendur nutu sín vel.

8.    Leikfélag Keflavíkur: Ávaxtakarfan eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur. Leikstjóri: Gunnar Helgason. Umgjörð og leikur verksins er vel unninn og boðskapurinn þessa þekkta verks kemst vel til skila í uppsetningunni.

9.    Leikfélag Kópavogs: Þrjár systur eftir Anton Tsjekhov. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson. Hér er á ferðinni vönduð uppfærsla á þessu sígilda verki. Leikritið gerir miklar kröfur til leikara, og var frammistaða leikenda með miklum ágætum.

10.    Leikfélag Selfoss: Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Leikstjóri: Sigrún Valbergsdóttir. Leikfélag Selfoss sýndi hugljúfa sýningu á þessu fallega verki, þar sem mikið mæddi á ungum leikurum í aðalhlutverkum og skiluðu þeir og hópurinn sínu vel.

11.    Leikfélag Selfoss: Maríusögur eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir. Þetta tragíkómíska verk gerir talsverðar kröfur til leikaranna sem komust afar vel frá sínu.

12.    Leikfélag Seyðisfjarðar: Villa og sjóræningjarnir eftir Ágúst T. Magnússon leikstjóra. Sýningin er fjörug og hugmyndarík, með leikurum á öllum aldri.

13.    Leikfélag Ölfuss: Makalaus sambúð eftir Neil Simon. Leikstjóri: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson. Í sýningunni náðist að skapa trúverðugar persónur og leikurinn var lipur og áreynslulaus.

14.    Leikfélagið Grímnir: Lýðræði eftir Bjarka Hjörleifsson. Leikstjóri: Hrafndís Bára Einarsdóttir. Leikhópurinn skapar hér nýtt verk, byggt á spuna, þar sem gerðar eru ýmsar skemmtilegar tilraunir.

15.    Leikfélagið Hugleikur: Stund milli stríða eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Leikstjóri: Jón St. Kristjánsson. Þórunn Guðmundsdóttir hefur hér skrifað heilan söngleik fyrir félaga sína, og er útfærsla tónlistar í sýningunni sérlega vönduð. Sýningin, þar sem unnið er með ákveðna þætti í sögu 20. aldarinnar, er skemmtileg og vel unnin.

16.    Skagaleikflokkurinn: Sagnakonan eftir Óskar Guðmundsson, Jakob S. Jónsson og leikhópinn. Leikstjóri: Jakob S. Jónsson. Leikhópurinn teflir saman tveimur ólíkum tímabilum, til að koma hugvitssamlega yfir átakasögu úr héraði.

17.    Stúdentaleikhúsið: Djamm er snilld! eftir Tryggva Gunnarsson leikstjóra, sem samdi handrit byggt á sögum og reynsluheimi meðlima Stúdentaleikhússins. Stúdentaleikhúsið leiðir áhorfandann um króka og kima “djammsins” í þessari kraftmiklu og skemmtilegu sýningu.

18.    Stúdentaleikhúsið: Sá á fund sem finnur sig eftir Pétur Ármannsson, Jónas Reyni Gunnarsson og hópinn. Leikstjóri: Pétur Ármannsson. Sýningin var lífleg og skemmtileg tilraun sem vindur upp á sig með óvæntum hætti og vísar til áhorfendanna sjálfra.

19.    Umf. Reykdæla: „Ert’ ekk’ að djóka (elskan mín)?“ eftir Bjartmar Hannesson. Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson. Hér skiptast á gaman og alvara, í fjörugri sýningu með skemmtilegri tónlist.

Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2013-2014 sýningu Hugleiks á Stund milli stríða.

Umsögn dómnefndar um sýninguna:

Stund milli stríða eftir Þórunni Guðmundsdóttur, í leikstjórn Jóns St. Kristjánssonar, er nýr íslenskur söngleikur, en Þórunn semur bæði texta og tónlist. Sögusviðið og umfjöllunarefnið er áhugavert, við hverfum aftur til kreppunnar milli stríða, með það í huga hvernig sá tími kallast á við okkar tíma. En hér eru húmorinn og ástin aldrei langt undan, né heldur tónlistin, og leikritið er bráðskemmtilegt. Fjöldi leikara og tónlistarmanna stendur að sýningunni, og flutningurinn er í senn kraftmikill, fjörugur og agaður. Umgerð sýningarinnar er einnig afar vel heppnuð, bæði leikmynd og búningar. Stund milli stríða, þrjátíu ára afmælissýning Hugleiks, sýnir svo um munar að leikfélagið ber aldurinn vel, og er fullt af áræðni, metnaði, fjöri og orku.

Þjóðleikhúsið óskar Hugleik til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna Stund milli stríða um miðjan júní í Þjóðleikhúsinu.