Þrettán leikhópar ungs fólks á Austurlandi undirbúa nú sýningar á þremur nýjum, íslenskum leikritum. Uppsetning verkanna er liður í Þjóðleik, leiklistarhátíð ungs fólks á Austurlandi, sem er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, afhenti forsvarsmönnum verkefnisins um tveggja og hálfrar milljón króna styrk frá alþjóðlegum Samfélagssjóði Alcoa við athöfn í höfuðstöðvum Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði í dag.
Hátt í tvöhundruð ungmenni í þrettán leikhópum af öllu Austurlandi, allt frá Vopnafirði að Höfn í Hornafirði, taka þátt í Þjóðleik og æfa nú ný leikverk eftir Bjarna Jónsson, Sigtrygg Magnason og Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann sem voru skrifuð sérstaklega fyrir verkefnið. Hver hópur mun frumsýna í sinni heimabyggð, en uppskeruhátíð verður haldin á Egilsstöðum 25.-26. apríl næstkomandi, þar sem allir hóparnir koma saman og sýna verk sín. Þetta verður stærsta leiklistarhátíð sem haldin hefur verið hér á landi. Stjórnendur hópanna hafa undanfarið notið aðstoðar og faglegrar leiðsagnar sérfræðinga og listamanna Þjóðleikhússins. Námskeið hafa verið haldin í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði, og hafa þau verið mjög vel sótt.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, sagði við afhendingu styrksins í dag: Öflugt menningarlíf er forsenda byggðar alls staðar á landinu, ekki síður en öflugt atvinnulíf. Við breyttar aðstæður í samfélaginu var lögð sérstök áhersla á það við úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði Alcoa að þau verkefni sem hlytu styrk byggðust á þáttöku sem allra flestra og einnig að sem flestir gætu notið þeirra. Það er þess vegna mjög ánægjulegt að sjá hversu góð þátttaka er í þessu spennandi verkefni.
Tinna Gunnlaugsdóttir, þjóðleikhússstjóri sagði við sama tilefni: Nú um stundir er mikilvægi verkefnis sem þessa ótvírætt enda er inntak þess samstaða og sköpunarkraftur. Margfeldisáhrif Þjóðleiksverkefnisins verða gífurleg og það er von leikhússins að allir þeir sem að því koma muni búa lengi að reynslu sinni og að hún verði hvatning til fleiri góðra verka.