Undirrituð fór að sjá frumsýningu á Hnerranum á Selfossi um helgina. Hvar á maður eiginlega að byrja? Ætli sé ekki bara best að byrja á byrjuninni.
Anton Tsjekoff er ljómandi leikskáld. En hefur orð á sér, eins og fram kemur í leikskrá, fyrir að vera þunglamalegur og langdreginn í verkum sínum. Þó svo að hann hafi viljað meina að mörg verka sinna væru hugsuð sem gamanleikir. Það er hins vegar ekki vandamál sem Michael Frayn hefur átt við að stríða. Hann er þekktastur fyrir hroðalega fyndna farsa. Í verkinu Hnerrinn leikgerir sá síðarnefndi nokkrar sögur eftir þann fyrrnefnda ásamt því að tengja saman nokkra einþáttunga, og útkoman er óvéfengjanlega gamanleikur.
Undirrituð fór að sjá frumsýningu á Hnerranum á Selfossi um helgina. Hvar á maður eiginlega að byrja? Ætli sé ekki bara best að byrja á byrjuninni.
Anton Tsjekoff er ljómandi leikskáld. En hefur orð á sér, eins og fram kemur í leikskrá, fyrir að vera þunglamalegur og langdreginn í verkum sínum. Þó svo að hann hafi viljað meina að mörg verka sinna væru hugsuð sem gamanleikir. Það er hins vegar ekki vandamál sem Michael Frayn hefur átt við að stríða. Hann er þekktastur fyrir hroðalega fyndna farsa. Í verkinu Hnerrinn leikgerir sá síðarnefndi nokkrar sögur eftir þann fyrrnefnda ásamt því að tengja saman nokkra einþáttunga, og útkoman er óvéfengjanlega gamanleikur.
Leikfélag Selfoss fer dandalavel með þetta verk. Þættirnir sjö eru leiknir af níu leikurum. Þættirnir eru allir afskaplega vel unnir og leiknir af öryggi. Þeir sem mér þóttu þó standa örlítið uppúr voru titilþátturinn, Hnerrinn, sem er skemmtileg sviðssetning á smásögu eftir Tsjekoff, og síðasti þátturinn, Bónorðið. Í báðum þessum þáttum fór ungstirnið Stefán Ólafsson gjörsamlega á kostum. F. Elli Hafliðason fór líka einstaklega vel með öll sín hlutverk. Annars er erfitt að gera upp á milli leikara í þessari sýningu, þar sem þeir stóðu sig allir frábærlega og hvergi var veikan hlekk að finna í leikaraliðinu.
Úrvinnslan af hálfu leikstjóra og útlitshönnuða var afbragð. Lausnir í skiptingum (mikil og farsaleg hlaup við undirleik rússneskrar tónlistar) eru mjög skemmtilegar. Yfirbragð þáttanna var látlaust og kom efninu áreynslulaust til skila. Allt útlit var skemmtilega og hugvitsamlega hannað. Til dæmis var mjög skemmtilegur franskur gluggi á sviðinu, sem skaut upp kolli í ýmsum þáttum.
Það vakti athygli mína að fimm manns voru skrifaðir fyrir lýsingu sýningarinnar. Fréttir ég eftirá að hirðljósamaður leikfélagsins hefði verið með þennan hóp í læri, og nú væri verið að undirbúa að næsta kynslóð ljósamanna tæki við. Þetta þykir mér snilldarhugmynd sem fleiri leikfélög ættu að stela.
Sem sagt, stórgóð sýning á Selfossi sem óhætt er að mæla með.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir