Þann 4. maí sl. var aðafundur Bandalags íslenskra leikfélaga haldinn í félagsheimilinu Logalandi í Reykholtsdal. Á fundinn mættu um 60 fulltrúar frá 19 leikfélögum sem er meira en yfirleitt hefur verið undanfarin ár. Þorgeir Tryggvason var endurkjörinn formaður og Ólöf Þórðardóttir í stjórn. Varastjórn er líka óbreytt nema hvað Salbjörg Engilbertsdóttir, Leikfélagi Hólmavíkur tók sæti Magnúsar J. Magnússonar sem gaf ekki kost á sér.
Stjórn Bandalagsins er því þannig skipuð:
Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, formaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, varaformaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, ritari
Halldór Sigurgeirsson, Eyjafjarðarsveit, meðstjórnandi
og Þráinn Sigvaldason, Borgarfirði eystri, meðstjórnandi
Í varastjórn sitja Þrúður Sigurðar, Þorlákshöfn, Bernharð Arnarson, Hörgárdal, Embla Guðmundsdóttir, Reykholtsdal, Ylfa Mist Helgadóttir, Bolungarvík og Salbjörg Engilbertsdóttir, Hólmavík.
Fyrir fundinum lá að leita lausna á erfiðri fjárhaghagsstöðu Bandalagsins og koma henni réttu megin við núllið. Ljóst er að ef að það tekst ekki með öðrum leiðum, verður ekki hjá því komist að skerða þjónustustig þjónustumiðstöðvar. Fundarmenn voru almennt sammála um að æskilegra væri að skerða starfshlutfall starfsmanna en að grípa til uppsagna þar sem það, að reka skrifstofuna með einum starfsmanni, þýddi mjög mikla skerðingu á þjónustu. Stjórn mun í samvinnu við starfsfólk vinna að útfærslu á því hvernig best verður hagrætt í rekstrinum.
Í skýrslu formanns kom fram að 39 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 106 verkefni fyrir leikárið 2011-2012. Fullur styrkur reyndist vera 246.332 krónur. Sú kerfisbreyting hefur verið gerð af stjórnvöldum að ríkisstyrkurinn til þjónustumiðstöðvarinnar er ekki lengur á fjárlögum, heldur er Bandalaginu gert að sækja um hann til ráðuneytisins. Í febrúar sl. var gengið frá samkomulagi sem hljóðaði upp á 5 milljón króna styrk til miðstöðvarinnar árlega næstu þrjú árin. Ljóst er þó að það dugar ekki til að endar nái saman.
Starfsáætlun fyrir leikárið 2013-14 er eftirfarandi:
Almenn starfsemi :
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Sérverkefni ársins:
1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.
2. Að stjórn kanni möguleika á að halda leiklistarhátíð 2015 og hefji undirbúning telji stjórn slíka hátíð framkvæmanlegt verkefni.
Fundurinn mat það sem svo að ekki væri lengur ástæða til að hafa liðinn um áframhaldandi samstarf við Þjóðleikhúsið um Athyglisverðustu áhugaleiksýninunga inn á starfsáætlun því þótt að almenn ánægja væri með samstarfið og einhugur um að halda því áfram, væri framkvæmd þess nær eingöngu hjá Þjóðleikhúsinu og stjórn Bandalagsins kæmi þar hvergi að.
Árgjald verður óbreytt á næsta leikári eða 60.000 kr. fyrir leikfélög sem setja upp eina styrkhæfa sýningu á leikárinu, 90.000 kr. fyrir þau sem setja upp tvær, 120.000 kr. fyrir þær sem setja upp þrjár og 30.000 kr. fyrir þau sem ekki setja upp. Hins vegar var ákveðið að taka 1 milljón af verkefnastyrk leikfélaganna til reksturs þjónustumiðstöðvarinnar eins og gert hefur verið undanfarin ár.
Á árinu sögðu fjögur leikfélög sig úr Bandalaginu, Leiklistarfélag Seltjarnarness, Leikfélag Raufarhafnar, Leikfélagið Baldur og Leikfélag Siglufjarðar. Það síðastnefnda hyggst þó sameinast Leikfélagi Ólafsfjarðar undir merkjum Leikfélags Fjallabyggðar en í vetur settu þessi félög í sameiningu upp gamanleikinn Stöngin inn! eftir Guðmund Ólafsson og varð sýningin fyrir valinu sem Athyglisverðasta áhugleiksýningin 2012-13 og er því óhætt að segja að þessi sameining fái fljúgandi start. Aðildarfélög Bandalagsins nú í lok leikárs eru því 59.
Starf fastra nefnda á vegum Bandalagsins gekk sinn vanagang á leikárinu, Leiklistarkólinn starfaði af sama krafti og áður og í ár voru þrjú afar vel heppnuð námskeið haldinn að Húnavöllum. Leiklistarvefurinn hélt sínu striki en ljóst er að ráðast þarf í uppfærslu á vefkerfinu eins fljótt og fjárhagur leyfir þar sem það er komið nokkuð til ára sinna. Handritasafnið vex og dafnar og stöðugt er unnið í að efla það og bæta skráningu þess, notendum til hægindaauka.
Leikfélag Vestmannaeyja baust til að halda næsta aðalfund og verður hann því í Eyjum að ári liðnu.