Oft er rætt um að þáttur kvenna sé lítill í leiklistarheiminum, en þær Súsanna Svavarsdóttir, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, Aldís Davíðsddóttir og Hrefna Lind Lárusdóttir láta svo sannarlega að sér kveða. Þær munu ræða sína sérhæfingu innan greinarinnar þriðjudagskvöldið 17. febrúar kl. 20.00 í Tjarnarbíói.
Súsanna Svavarsdóttir á langan feril að baki sem blaðamaður. Hún hefur starfað á prentmiðlum, í útvarpi og sjónvarpi. Fyrir utan almenna blaðamennsku, var Súsanna menningarritstjóri Morgunblaðsins um margra ára skeið þar sem hún skrifaði bæði bókmennta- og leiklistargagnrýni. Hún ætlar að segja okkur frá starfi gagnrýnandans og hvað hún telur að hlutverk hans sé.
Hallfríður Þóra Tryggvadóttir fjallar um póstdramatískt leikhús og þróun í sviðslistum. Hún mun taka fyrir BA-ritgerð sína í almennri bókmenntafræði. Ritgerðin er greining á leiksýningunni Spegilbroti, sem Hallfríður setti upp í Tjarnarbíói ásamt sviðslistahópi síðasta vor, út frá kenningum Hans-Thies Lehmanns um póstdramatískt leikhús. Hún er verkefnastjóri hjá RIFF, stjórnandi menningarviðburða og sviðslistakona. Í haust stýrði hún sviðslistahátíðinni All Change Festival í Reykjavík sem fór fram í Tjarnarbíói og hafði yfirskriftina: „Hvað er leikrit?”.
Aldís Davíðsdóttir er einn af stofnendum leikhópsins Skýjasmiðjunnar en þau hafa sett upp tvö verk, fyrra verkið var grímuleikur, Hjartaspaðar, og sú seinni, Fiskabúrið, var sýning fyrir yngstu áhorfendurnar. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að vera án orða og mun hún fjalla um þá nálgun á sköpunarferlið.
Hrefna Lind Lárusdóttir er sviðslistakona með MFA Theatre Contemporary Performance frá Naropa University, Colorado í Bandaríkjunum. Hún starfaði og þjálfaði með erlendum leikhóp sem kallast Double Edge Theatre. Hún mun fjalla um tækni og sköpunarferli leikarans út frá hugmyndafræði Jerzys Grotowskis.