Föstudaginn 21. nóvember mun Lab Loki frumsýna Steinar í djúpinu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Steinar í djúpinu er nýtt íslenskt leikverk, byggt á skáldheimi Steinars Sigurjónssonar, aka: Bugði Beygluson, Steinar á Sandi, Sjóni Sands o.s.frv. Hér er ekki um að ræða leikgerð á einu tilteknu verki eftir hann, heldur sjálfstætt leikhúsverk sem sækir innblástur í allt hans höfundarverk og að hluta til í ævi hans og örlög. Verkið er vegferð um kvasseggjað grjót, ferðalag um sagnaheim Steinars; um þorpið þar sem lúin þil lykta af hlandi og svita og fullir dusar blanda í svartan dauðann; um ægifegurðir og erkiljótleika djúpsins sem er ægilegt. Jafn heillandi og skelfíngin sem á móti vegur.
Tónlist kemur hér mjög við sögu, takturinn í tungutakinu, músikin í málnotkuninni og knéfiðlan og slagharpan eru sjaldan langt undan, enda tekur ferðalagið mið af sónötunni. Sónatan hentar kynjaheimi Steinars vel, til þess að ná utan um alla þá óreiðu og þær andstæður sem þar birtast, brjálið og kyrrðina, harminn og ískaldan húmorinn.
Rúnar Guðbrandsson semur leikgerðina og leikstýrir hópnum sem glímir við að að holdgera og andsetja texta Steinars við tónlist Guðna Franssonar. Móeiður Helgadóttir sér um leikmynd, Garðar Borgþórsson lýsir, Myrra Leifsdóttir hannar búninga og Ásta Hafþórsdóttir gervi.
Leikarar í sýningunni eru Árni Pétur Guðjónsson, Birna Hafstein, Björn Ingi Hilmarsson, Erling Jóhannesson, Harpa Arnardóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Karl Guðmundsson, Ólafur Darri Ólafsson, Steinunn Knútsdóttir og Tómas Lemarques. Hljóðfæraleikarar í sýningunni eru auk Guðna Franssonar (klarínett o.fl.) þau Daníel Þorsteinsson (píanó) og Bryndís Halla Gylfadóttir (cello).