Hugleikur
Spilaborgir
Höfundur: Ásta Gísladóttir
Leikstjórar: Sigurður H. Pálsson og Þorgeir Tryggvason

Mömmudrengurinn Kári er ofvaxið og dálítið aulalegt barn á þrítugsaldri. Í stað þess að takast á við lífið utan heimilisins hefur hann valið sér það hlutskipti að  sinna lasinni móður sinni og byggja spilaborgir. Kári lifir við konuríki og örlagadísirnar birtast í líki þriggja nágranna sem reiða hvorki gáfur né gæfu í þverpokum. Mannlífið er málað í litum kaldhæðni og miskunnarleysis, en er samt svo líkt því sem gerist allt í kringum okkur. Þú getur lifað í núinu eða fortíðinni segja þær, lokað þig af eða stigið út.

Kári kýs að loka sig af í tímalausum spilaborgum. Í stað klisjukenndrar niðurstöðu um sögupersónu sem áttar sig í lokin og stígur út í lífið þá gengst Kári vitleysu sinni algerlega á hönd í lokakaflanum. Og áhorfandinn veltir því fyrir sér hvort að það hafi verið nokkuð verra val en hvað annað?

Með aðalhlutverkin, mömmuna og Kára, fara þau Helga Ágústsdóttir og Óskar Þór Hauksson. Bæði gera það afar vel. Sama má segja um búðastelpuna Lísu sem leikin er af  Maríu Björt Ármannsdóttur. Öll þrjú skila hlutverkum sínum vel. Óskar Þór stendur þó upp úr sem trúverðugur mömmustrákur sem aldrei þorir að heiman.

Hugleikur stendur vitaskuld ekki undir nafni nema þar sé svolítil ærsl í bland við alvöruna. Einhverjir gætu talið  að hér sé farið offari, en hér fer ágætlega á því að ærslast svolítið. Bú, sem er búálfur, og túlkar innra sjálf aðalpersónunnar ærslast um sviðið og söngfíflið Lalli laglausi er einnig leikinn með miklum tilþrifum. Sama má raunar segja um gærurnar þrjár af miðhæðinni, Uglu, Söru og Veru.

Leikmyndin, sem Ingvar Guðni Brynjólfsson á heiðurinn af á sérstakt hrós skilið. Hún er skemmtileg blanda af ofhlaðinni íbúð og túlkun á hugarheimi eða minningum Kára. Tónlistin sem leikin á líka stóran þátt í að skapa réttu stemmninguna.

Í heild má segja að höfundi og aðstandendum sýningarinnar takist í þessu verki að koma ágætlega til skila almennum vangaveltum um lífið, val mannsins og takmarkanir. Og ekki sakar að þessar pælingar eru kryddaðar með smá húmor.

 

Elín Gunnlaugsdóttir