Leikfélag Selfoss: Uppspuni frá rótum eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjóri Þórey Sigþórsdóttir.
Leikritið Uppspuni frá rótum eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason er athyglisverð blanda af gamanleik og alvarlegri úttekt á 20. aldar sögu Íslendinga. Fjölskyldusaga þeirra Sigurðar og Bjargar er rakin allt frá millistríðsárum og til þess dags að alvarleg salernisferð ættföðurins verður til þess að kalla afkomendurna saman undir eitt þak. Þegar fjölskyldan er öll saman komin, kemur fljótt í ljós að það kraumar undir sléttu og feldu yfirborðinu. En það er illa gert gagnvart þeim sem eiga eftir að fara í Leikhúsið við Sigtún að gefa of mikið upp um efni verksins. Þó má bæta því hér við að eftir hlé rann upp fyrir gagnrýnanda hvernig titill verksins segir það sem segja þarf um harmræna og magnaða fjölskyldusögu.
Tónlistin skipar stóran sess í verkinu en höfundar verksins eru jafnfram félagar í hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum. Leikarar syngja ýmist einir eða allir saman bráðskemmtilega söngva. Meðleikur er í höndum leikara og verða söngatriðin þannig enn eðlilegri í framvindu verksins auk þess sem þau eru einkar skemmtilega útfærð af leikstjóranum. Tónlistarstjórn verkins er í höndum Stefáns Örn Viðarssonar og Guðnýjar Láru Gunnarsdóttur.
Heilmikil endurnýjun hefur átt sér stað í leikarahópi Leikfélagsins og mátti sjá á sviðinu mörg ný andlit. Ekki var það þó að merkja að reynsluleysi háði hópnum og var hann mjög samstilltur. Leikararnir eru allt í allt fimmtán og hlutverkin sextán það er því ljóst að frammistaða hvers og eins verður ekki tíunduð hér. Þó er vert að geta þeirra sem voru hvað eftirminnilegastir í sínum hlutverkum en það voru Jónheiður Ísleifsdóttir í hlutverki ættmóðurinnar Bjargar og Gústav Þór Stolzenwald í hlutverki ættföðurins Sigurðar. Þau voru mjög sannfærandi sem gömul hjón og líka þegar þau voru yngri að árum. Halldóra Ósk Öfjörð hefur mikla útgeislun á sviði og er hún í stóru hlutverki sem hin unga og leitandi Nína. Bjarni Stefánsson hefur leikið í mörgum sýningum Leikfélagsins og leikur hann Stefán, son þeirra Bjargar og Sigríðar. Í fyrstu virðist hlutverk hans ekki spennandi en þegar líður á sýninguna kemur annað í ljós og má segja að Bjarni hafi verið óhugnanlega sannfærandi í sínu hlutverki. Að lokum ber að nefna Kolbrúnu Lilju Guðndóttur í hlutverki Bryndísar en leikur hennar var mjög áreynslaus og var hún mjög góð bæði sem ungur hippi og miðaldra kona. Aðrir komust sem fyrr segir vel frá sínu og er leikhópurinn ótrúlega jafn.
Ljóst er að nostrað hefur verið við alla hluti í sýningunni. Fjölskyldan býr öll í sama húsi og gerist verkið í kringum aldamótin síðustu í einni af íbúðum hússins. Sviðsmyndin er einföld og er sviðið vel nýtt. Búningarnir hæfa vel tilefninu og hippabúningar eru alveg stórkostlegir og má segja að gagnrýnandi hafi færst aftur til sinna æskuára við að sjá þá. Ljósanotkun er með mestu ágætum og helst vel í hendur við sviðsetningu verksins en á heildina litið er óhætt að segja að leikstjóranum Þóreyju Sigþórsdóttur hafi tekist að setja á svið einkar skemmtilega sýningu sem þó er ekki eintóm skemmtun heldur vekur jafnframt upp spurningar um hina eilífu leit mannsins að ástinni og sjálfum sér.
Elín Gunnlaugsdóttir