Sunnudaginn 24. febrúar frumsýnir leikfélagið Snúður og Snælda leikritið Flutningarnir eftir Bjarna Ingvarsson en hann er jafnframt leikstjóri verksins. Leikritið er um leikhóp áhugamanna á landsbyggðinni, sem verður að flytja geymsluaðstöðu sína úr frystihúsi staðarins þar sem það er farið á hausinn og nýjir eigendur ljá ekki máls á því að leikfélagið fái áfram að nota aðstöðuna í frystihúsinu.

Um þessar mundir er leikfélagið Snúður og Snælda að hefja sitt 18. starfsár, svo segja má að félagið sé búið að slíta barnsskónum. Starfsemi félagsins er haldið uppi af áhugasömum eldri borgurum, sem finna sér þennan farveg á efri árum til að uppfylla lífsþorsta sinn í áhugaverðu og skapandi starfi. Að þessu sinni fékk félagið leikstjóra sinn Bjarna Ingvarsson til að semja leikrit fyrr félagið. Inn í leikritið er fléttað völdum atriðum úr leikriti Matthíasar Jochumssonar um Útilegumennina eftir því sem ýmsir leikmunir og búningar koma upp úr kössum þegar verið er að bera þá og annað dót út úr geymslunni. Þarna er brugðið á leik með ýmsum hætti, eftir því sem minningarnar hlaðast upp og félagar í leikfélaginu minnast fyrri daga.

Alls taka um 20 manns þátt í þessari uppfærslu. Auk frumsýningar eru áætlaðar fjórar sýningar í Iðnó þ.e. miðvikudaginn 27. febrúar, sunnudaginn 2. mars, fimmtudaginn 6. mars og sunnudaginn 9. mars. Auk þess mun leikritið verða sýnt 7 – 8 sinnum á Sparidögum  Hótel Arkar í Hveragerði. 

{mos_fb_discuss:2}